„þessi vitleysingur fyrst drep ég hann svo hengi ég mig“ stóð í textaskilaboðum sem hinn grunaði sendi rétt eftir miðnætti, aðfaranótt dagsins örlagaríka.
Þessi skilaboð voru borin undir hinn grunaða sem segist þó ekki hafa meint neitt með þeim.
Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði Landsréttar. En Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá 15. ágúst um að maðurinn verði í gæsluvarðhaldi til 8. september næstkomandi.
Teknar voru vitnaskýrslur af þremur manneskjum sem hann talaði við undir morgun þennan dag og lýstu þau öll því að hann hefði greint þeim frá því að hafa stungið Kaminski.
Í réttarkrufningu fundust fimm skarpar stungur á líki Kaminski. Þrjár í efri hluta búksins. Niðurstöðurnar benda til þess að dánarorsökin sé stunguáverki í framhluta vinstri holhandar, með sárgangi inn í hjartað.