Íslenski boltinn

„Tók meðvitaða ákvörðun um að vera rólegasti maðurinn á bekknum“

Andri Már Eggertsson skrifar
Kristján Guðmundsson í leik kvöldsins
Kristján Guðmundsson í leik kvöldsins Vísir/Diego

Stjarnan vann 0-1 sigur gegn FH þar sem Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir gerði sigurmarkið. Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með sigurinn.

„Ég met frammistöðuna nokkuð góða. Leikmennirnir framkvæmdu það sem við lögðum upp með og gerðu það rosa vel. Það var það sem var gott og við stilltum upp liðinu þannig að Jasmín ætti að klára þetta 0-2 en svona er þetta og við vorum sátt með leikinn,“ sagði Kristján Guðmundsson eftir leik.

Það kom Kristjáni örlítið á óvart hversu lokaður leikurinn var.

„Við áttum ekki alveg von á að þetta yrði svona lokaður leikur. Stundum vorum við aðeins of langt frá þeim og settum ekki nógu mikla pressu á þær og þetta var allt í lagi þrátt fyrir að boltinn hafi farið þrisvar í stöngina hjá okkur.“

Ingibjörg Lúcía skoraði sigurmarkið í fyrri hálfleik. FH hafði verið betri aðilinn fram að marki en Kristján var ekki viss hvort markið hafi komið gegn gangi leiksins.

„Ég átta mig ekki á því hvort markið hafi komið gegn gangi leiksins. Þetta var mjög vel gert og þetta er eitthvað sem við höfum verið að æfa. Þetta var fyrsta skotið okkar á markið og þetta var flott skot.“

FH fékk færi til að jafna leikinn undir lokin en Kristján sagðist hafa verið rólegasti maðurinn á bekknum.

„Ég tók meðvitaða ákvörðun um að vera rólegasti maðurinn á bekknum þannig að ég var ágætur en hinir voru stressaðir,“ sagði Kristján Guðmundsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×