Fótbolti

Gerði Napoli að meisturum og tekur nú við ítalska landsliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luciano Spalletti tekur við ítalska landsliðinu.
Luciano Spalletti tekur við ítalska landsliðinu. Cesare Purini/Mondadori Portfolio via Getty Images

Luciano Spalletti, fyrrverandi knattspyrnustjóri ríkjandi Ítalíumeistara Napoli, hefur verið ráðinn þjálfari ítalska landsliðsins.

Spalletti kvaddi Napoli fyrr í sumar eftir að hafa stýrt liðinu til síns fyrsta Ítalíumeistaratitils í 33 ár. Þessi 64 ára gamli þjálfari gerði ráð fyrir því að taka sér langt frí, en hefur nú ákveðið að snúa aftur á hliðarlínuna.

Spalletti tekur við starfinu af Roberto Mancini sem sagði starfi sínu lausu fyrr í þessum mánuði. Mancini stýrði ítalska landsliðinu í fimm ár og undir hans stjórn urðu Ítalir Evrópumeistarar árið 2020 eftir sigur gegn Englendingum í vítaspyrnukeppni. Ítalska liðinu mistókst hins vegar að vinna sér inn sæti á HM í Katar sem fram fór á síðasta ári.

Spalletti tekur við stjórnartaumunum hjá landsliðinu þann 1. september næstkomandi. Þjálfaraferill hans spannar rétt tæp 30 ár, en hann hefur stýrt liðuum á borð við Udinese, Roma og Inter ásamt Napoli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×