Íslenski boltinn

Chloe, Helena og Sísí klára sumarið með Eyjakonum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Breiðablik - ÍBV. Pepsideild Kvenna, sumarið 2019. Knattspyrna, fótboti
Breiðablik - ÍBV. Pepsideild Kvenna, sumarið 2019. Knattspyrna, fótboti

Eyjakonur unnu mikilvægan sigur í Bestu deild kvenna í gærkvöldi og náði fyrir vikið þriggja stiga forskoti á Keflavík í baráttunni um öruggt sæti í deildinni.

Þetta voru ekki einu góðu fréttirnar fyrir ÍBV liðið í gær því liðinu hefur einnig borist góður liðstyrkur fyrir lokasprettinn.

Þrír leikmenn gengu til liðs við liðið áður en glugginn lokaði en þær koma úr ýmsum áttum og léku allar með liðinu í gær í sigrinum gegn Keflavík. ÍBV segir frá á heimasíðu sinni.

Chloe Hennigan kemur frá írska liðinu Treaty United sem leikur í efstu deild þar í landi. Hún hafði leikið vel með írska liðinu á tímabilinu og spilað alla leiki deildarinnar áður en gert var hlé á deildinni vegna HM, þar sem Írar voru með lið. Hún er 22 ára varnarmaður.

Hinir tveir leikmennirnir eru Vestmanneyingar en Helena Hekla Hlynsdóttir kom til ÍBV frá Selfossi þar sem hún hefur leikið frá árinu 2017 fyrir utan tímabilið 2018 þar sem hún lék með ÍBV. Helena lék í hægri bakverði í gær.

Þá hefur Sigríður Lára Garðarsdóttir ákveðið að ljúka tímabilinu með ÍBV en hún setti fótboltaskóna upp á hillu fyrr á árinu. Sísí hefur nú ákveðið að taka skóna af hillunni til að hjálpa ÍBV á lokasprettinum í deildinni. Sísí er einn besti leikmaður sem ÍBV hefur alið af sér en hún á 20 A-landsleiki og 297 leiki á vegum KSÍ, þar af 167 í efstu deild kvenna.

Sigríður Lára átti stóran þátt í sigurmarki ÍBV liðsins þegar hún vann boltann sem leiddi til þess að Þóra Björg Stefánsdóttir skoraði eftir stoðsendingu frá Telusilu Mataaho Vunipola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×