Skoðun

Stolt út um allt!

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar

Þessa vikuna fögnum við fjölbreytileikanum í allri sinni dýrð og dásemd með Hinsegin dögum.

Á þessum tíma árs nýti ég tækifærið og þakka fyrir frelsið og viðurkenninguna sem íslenskt samfélag hefur veitt mér sem lesbíu og öðru hinsegin fólki. Frelsið sem ég vona að ég geti búið við um ókomna tíð. Að aldrei aftur þurfi ég að óttast um öryggi mitt eða viðurkenninguna sem ríkir í samfélaginu og mætir mér alla jafna í mínu daglega lífi.

Alvöru frelsi það!

Á sama tíma er dapurlegt til þess að hugsa að enn á ný verða hópar innan hinsegin samfélagsins fyrir ofbeldi í okkar upplýsta samfélagi. Þessi misserin eru það einkum og sér í lagi trans fólk og þar á meðal ungmenni sem reyna hvað þau geta að standa með sjálfum sér, stolt og glöð yfir því að hafa fundið sitt eigið sjálf. Fundið kjarkinn sinn og þor til að stíga fram og vera sýnileg sem þær manneskjur sem þau eru.

Fátt er nú fallegra en einmitt það.

Bakslag er það og bakslag hræðir. Bakslag sem er að eiga sér stað út um allan heim. Líka hér á Íslandi. Þrátt fyrir öll þau lagalegu réttindi sem búið er að tryggja og opinskárri umræðu í okkar samfélagi. Við því verðum við einfaldlega að bregðast og stíga fast niður fæti.

Fræðsla eflir og styrkir okkur sem samfélag

Fleiri og fleiri sveitarfélög hafa verið að svara kalli hinsegin samfélagsins eftir aukinni fræðslu í samfélaginu með samningum um fræðslu fyrir starfsfólk sitt en ekki síður fræðslu til barna og ungmenna innan skólakerfisins. Því það magnaða er að það virkar.

Það er aldrei of seint að taka skrefið og taka ábyrgð.

Kæra sveitastjórnarfólk ég hvet ykkur til þess að hvetja og styðja hvert annað til góðra verka og tryggja þau verkfæri sem við búum yfir með þeirri gríðarlegu þekkingu og öflugu fræðslu sem Samtökin 78 geta boðið upp á. Okkar allra er að hafa áhrif til góðs.

Lyftum mennskunni og berum virðingu fyrir hvort öðru svo við getum öll staðið upprétt og stolt.

Gleðilega hinsegin daga!

Höfundur er bæjarfulltrúi og oddviti Viðreisnar í Garðabæ.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×