Samkomulag milli Íslands og Kanada um vinnudvöl ungmenna var undirritað á föstudag. Samningurinn kveður á um að ungmenni á þessum aldri geti ferðast og starfað í Kanada í allt að 12 mánuði, með möguleika á að framlengja dvölina um 12 mánuði.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem stödd er í Winnipeg í Kanada í tilefni af Íslendingadeginum í Manitoba, undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands. Áslaug Arna tók þar þátt í hátíðarhöldum tengdum Íslendingadeginum, þar á meðal skrúðgöngu, fjallkonuhádegisverði og móttöku formanns Íslendingadagsins, ásamt því að flytja ávarp við hátíðarhöldin.
„Við erum stolt af þessu samstarfi við Kanada. Það gefur íslenskum ungmennum tækifæri á að kynnast ólíkri menningu og víkka sjóndeildarhringinn, ásamt því að gera þeim kleift að ná sér í verðmæta starfsreynslu á alþjóðlegum vettvangi,“ er haft eftir ráðherra á vef stjórnarráðsins.
Gert er ráð fyrir því að samningurinn verði innleiddur árið 2024, þegar að allar kröfur hafa verið uppfylltar. Samningurinn er gagnkvæmur, en það var Marie-France Lalonde, þingritari ráðherra innflytjenda, flóttamanna og ríkisborgararéttar sem undirritaði samninginn fyrir hönd Kanada. Hann mun gera 120 ungmennum frá hvoru landi fyrir sig kleift að dvelja og starfa í Kanada eða á Íslandi í allt að 24 mánuði.
Samningurinn verður þriðji vinnudvalarsamningurinn sem íslensk ungmenni geta nýtt sér, en þegar eru í gildi slíkir samningar við Bretland og Japan.
„Þá styrkir samningurinn enn frekar tengslin milli Íslands og Kanada sem byggjast á góðu samstarfi ríkjanna og sameiginlegum gildum,“ segir í tilkynningu.