Fótbolti

Sjáðu markið: Sveinn Aron á skotskónum þegar Elfs­borg jók for­ystu sína

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveinn Aron var á skotskónum í dag.
Sveinn Aron var á skotskónum í dag. Twitter@IFElfsborg1904

Elfsborg jók forystu sína í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu með 4-0 útisigri á Djurgården. Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði fjórða mark Elfsborg og Hákon Rafn Valdimarsson stóð vaktina milli stanganna.

Sigur gestanna var aldrei í hættu en Alexander Bernhardsson kom Elfsborg yfir strax á 3. mínútu. Þegar 20 mínútur voru liðnar hafði Jeppe Okkels tvöfaldað forystuna með marki úr vítaspyrnu og Okkels gerði í raun út um leikinn áður en fyrri hálfleik var lokið. Staðan 0-3 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Sveinn Aron kom inn af bekknum á 64. mínútu og það tók hann ekki langan tíma að komast á blað. Innan við tveimur mínútum eftir að koma inn af bekknum hafði Sveinn Aron skoraði fjórða mark gestanna. Markið skoraði hann með hægri fótar skoti eftir að Elfsborg vann boltann upp við vítateig heimamanna. Staðan orðin 4-0 og reyndust það lokatölur.

Elfsborg trónir nú á toppi deildarinnar með 39 stig að loknum 16 leikjum. Valgeir Lunddal Friðriksson og félagar í meistaraliði Häcken eru í 2. sæti með 35 stig. Häcken leikur síðar í dag og getur minnkað muninn niður í eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×