Umfjöllun, viðtöl og myndir: KR - Víkingur 1-2 | Aron Elís skoraði í endurkomunni

Kári Mímisson skrifar
Víkingar fagna marki í leik kvöldsins
Víkingar fagna marki í leik kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

Topplið Víkings vann KR á Meistaravöllum 1-2. Helgi Guðjónsson kom gestunum yfir eftir mistök hjá Simen Kjellevold, markmanni KR. Aron Elís Þrándarson skoraði annað mark Víkings í endurkomu sinni. Kristján Flóki minnkaði muninn úr vítaspyrnu en nær komst KR ekki. 

KR-ingar byrjuðu leikinn betur en það var mikill kraftur í heimamönnum í upphafi leiks. Það voru hins vegar gestirnir sem skoruðu fyrsta mark leiksins. Þar var að verkum Helgi Guðjónsson eftir skelfileg mistök hjá Simen Kjellevold í marki KR. 

Simen gerði ansi klaufaleg mistök í fyrsta marki VíkingsVísir/Hulda Margrét

Fyrirliði KR, Kennie Chopart, lék þá boltanum til baka á Simen sem áttu lélega fyrstu snertingu og missti boltann frá sér og Helgi þakkaði pent fyrir sig og skoraði auðveldlega. Fyrsta mark hans í deildinni í sumar. Helgi kann vel við sig hér á KR-vellinum en fyrir tveimur tímabilum skoraði Helgi sennilega mikilvægasta mark ferils síns þegar hann tryggði Víkingum sigurinn gegn KR og fór í leiðinni langleiðina með að vinna Íslandsmeistaratitilinn fyrir Víkinga.

Ákefðin var mikill í báðum liðum sem náðu þó ekki að skapa sér nein opin færi eftir þetta og því var staðan 0-1 fyrir Víkinga þegar Ívar Orri, dómari leiksins flautaði til hálfleiks. Ívar Orri þurfti hins vegar að fara af velli í hálfleik og því flautaði fjórði dómari leiksins, Elías Ingi Árnason síðari hálfleikinn.

Aron Elís skoraði í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Það var svo eftir rúmlega 10 mínútna leik í síðari hálfleik sem Víkingar tvöfölduðu forystu sína og það gerði nýjasti liðsmaður þeirra, Aron Elís Þrándarson. Birnir Snær Ingason átti þá hornspyrnu frá vinstri á nær stöngina þar sem Aron var mættur og skallaði boltann aftur fyrir sig í bláhornið. Glæsilega gert hjá Aroni sem átti frábæran dag á miðju Víkinga.

Skömmu síðar minnkaði KR muninn og það gerði Kristján Flóki Finnbogason úr vítaspyrnu. Logi Tómasson braut þá á Atla Sigurjónssyni og Elías Ingi var í engum vafa og dæmdi réttilega vítaspyrnu.

Atli Sigurjónsson og Logi Tómasson í baráttunniVísir/Hulda Margrét

KR reyndi allt hvað þeir gátu til að jafna leikinn og komust þeir Ægir Jarl Jónasson og Kennie Chopart næst því að jafna leikinn en inn vildi boltinn ekki og það voru því Víkingar sem fengu stigin þrjú og náðu í leiðinni að styrkja stöðu sína á toppnum.

Það var hart barist í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Víkingur?

KR nýtti ekki sín færi og á sama tíma þá nýtti Víkingur sína möguleika vel þó svo að þeir hafi ekki verið margir í kvöld. Varnarlega voru svo Víkingar þéttir og þekkja það vel að þjást enda hefur þjálfari þeirra einbeitt sér mikið að því að kenna þeim þá list.

Hverjir stóðu upp úr?

Aron Elís Þrándarson var gjörsamlega frábær í kvöld, þvílík endurkoma hjá honum og við bjóðum hann hjartanlega velkominn heim í Bestu deildina. Aron stýrði miðjuspili Víkings eins og hershöfðingi og kórónaði svo daginn sinn með því að skora þetta glæsilega mark. Eftir að hann fór af velli mátti sjá augljósan mun á liðinu.

Hvað gekk illa?

Það var mikill hraði og barátta í leiknum í dag en gæðalega séð var þetta engin veisla. Víkingar áttu í miklum vandræðum með að skapa sér opin marktækifæri og KR fór illa með sína möguleika.

Hvað gerist næst?

Víkingar fá Eyjamenn í heimsókn næsta sunnudag á meðan KR mætir erkifjendum sínum í Val á mánudaginn eftir vikur. Báðir leikirnir hefjast klukkan 19:15 og eru í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Það vantar aðeins upp á leikformið, ég viðurkenni það

Aron Elís Þrándarson var í byrjunarliði VíkingsVísir/Hulda Margrét

Aron Elís Þrándarson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Víking í níu ár og skoraði í endurkomunni. Aron sem leikið hefur sem atvinnumaður í Noregi og Danmörku undanfarin ár segir að það gott að vera mættur aftur og var að vonum sáttur með stigin þrjú.

„Tilfinningin er gríðarlega góð. Það var alvöru stress þarna í lokin en sem betur fer hafðist þetta.

Aron Elís hefur ekki spilað síðan að danska deildin kláraðist í byrjun síðasta mánaðar. Hvernig er formið?

„Það er að koma til. Það vantar aðeins upp á leikformið, ég viðurkenni það en þetta kemur allt. Völlurinn var smá þungur í dag. Þetta voru rúmlega 70 mínútur í dag og við byggjum ofan á það.

En hvernig er að vera kominn aftur úr atvinnumennsku í þitt uppeldisfélag?

„Þetta er bara alvöru lið með alvöru seiglu. KR-ingarnir gerðu okkur erfitt fyrir hér í lokin og settu pressu á okkur en við erum með alvöru menn í þessu liði og þetta hafðist.

Aron skoraði með glæsilegum skalla í dag. Hversu ljúft var að skora í endurkomunni?

„Við vorum búnir að tala um það í hálfleik að ég væri frír í hornunum og svo kom fyrsta hornið í seinni hálfleik og boltinn fór inn sem betur fer. Ótrúlega gaman að sjá hann inni.

Ég ætla að vona að fólk taki þessu ekki eins og ég sé að vera með einhverjar afsakanir

Arnar Gunnlaugsson var ánægður með sigurinnVísir/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var sáttur með stigin þrjú. Fyrir leikinn hafði KR ekki tapað síðan 13. maí en liðið hefur verið á góðri siglingu undanfarnar vikur. Arnar lagði mikla áherslu á hversu mikilvægur sigurinn í kvöld væri fyrir liðið.

„Þetta var virkilega erfiður leikur sérstaklega seinni hálfleikurinn. Mér fannst við vera komnir með þetta í 2-0 en gáfum þeim svo óþarfa víti og þeir hentu á okkur öllu sem þeir áttu undir lokin. Sem betur fer náðum við að þrauka þetta út. Þetta var massífur sigur og ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hversu massífur sigur þetta er á útivelli gegn sterku liði. Þetta var svona nostalgíu leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira