Í fréttum Stöðvar 2 var sent út bent frá Djúpósstíflu og rætt við Þykkbæinginn Guðjón Ármannsson frá Vesturholtum. Á sama tíma sátu um 190 manns kaffisamsæti í íþróttahúsinu í Þykkvabæ í umsjón Kvenfélagsins Sigurvonar eftir að nýtt söguskilti var afhjúpað við stífluna, við hlið þrjátíu ára gamals minnisvarða.

Stíflan er um sex kílómetra ofan við þorpið í Þykkvabæ. Hún reis við ármót Ytri-Rangár og Þverár en þar koma saman báðar Rangárnar, og áður fyrr einnig Markarfljót, meðan það rann í Þverá, þannig að vatnsmagn helstu fljóta Rangárvallasýslu fór um Djúpós.
Gerð stíflunnar fyrir tíma vélvæðingar þótti afrek á sínum tíma en milli níutíu og eitthundrað menn reistu stífluna að mestu í höndunum. Hún var 340 metra löng og fimmtán metra breið og var talin eitt mesta mannvirki landsins. Verkið tók fimm vikur, hófst 29. maí árið 1923 og þann 4. júlí var stíflan fullgerð.

„Það var einfaldlega vegna þess að Djúpósstífla bjargaði Þykkvabænum,“ svarar Guðjón Ármannsson spurningu um hversvegna Þykkbæingum þyki svona vænt um stífluna, sem fremur mætti kalla varnargarð.
„Það var þannig að árnar hérna flæmdust yfir Þykkvabæinn og Safamýri. Þykkvibærinn var orðinn óbyggilegur. Þykkvibærinn var orðinn eins og eyðisker. Hann var hólmi.
Allir búskaparmöguleikar voru farnir og á vettvangi dagblaðanna var rætt um það að það þyrfti að flytja allt fólkið út til Ameríku vegna þess að það var ekki byggilegt hérna lengur.
Þannig að hér stöndum við á þessum stað og minnumst þessa atburðar þegar Þykkvabæ var bjargað,“ segir Guðjón.

Þykkvibær telst í dag höfuðból kartöflunnar á Íslandi. Sveitin hefði vart náð þeim sessi ef stíflan hefði ekki risið.
„Já, það er alveg á hreinu. Vegna þess að eftir að Djúpós var stíflaður þá færðust Þykkbæingar í aukana, fóru í kartöflurækt. Fóru að rækta kartöflur hér á söndunum sem áður voru undir vatni og þeir efldust og Þykkvabæjarkartöflurnar urðu til,“ segir Guðjón.
Hér má sjá útsendingu Stöðvar 2 úr Þykkvabæ:
Hér má sjá kafla úr þætti um Þykkvabæ sem Stöð 2 sýndi fyrir tveimur árum:
Hér má sjá annan kafla úr þættinum: