Erlent

Sögð ætla að lýsa vinsælt sætuefni mögulegan krabbameinsvald

Kjartan Kjartansson skrifar
Gervisætuefni eins og aspartam eru meðal annars notuð í vinsæla gosdrykki eins og sykurlausar útgáfur Kóks.
Gervisætuefni eins og aspartam eru meðal annars notuð í vinsæla gosdrykki eins og sykurlausar útgáfur Kóks. Vísir/Getty

Undirstofnun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) er sögð ætla að lýsa gervisætuefnið aspartam mögulegan krabbameinsvald í næsta mánuði. Aspartam er notað í fjölda sykurlausra gosdrykkja og tyggigúmmí svo eitthvað sé nefnt.

Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum sínum að Aljóðlega krabbameinsrannsóknastofnunin (IARC), sem er hluti af WHO, ætli að skrá aspartam sem mögulegan krabbameinsvald í mönnum. Lokahönd hafi verið lögð á ákvörðun um það á fundi sérfræðinga fyrr í þessum mánuði.

Önnur alþjóðleg stofnun sem fjallar um bætiefni í matvælum, JECFA, er einnig sögð fara yfir öryggi aspartams. Hún tilkynni niðurstöðu sínar á sama tíma og IARC. JECFA sér um að gefa út tilmæli um hvað teljist öruggur skammtur fyrir fólk.

Núgildandi tilmæli JECFA um aspartam gera ráð fyrir að manneskja þyrfti að drekka á bilinu tólf til 36 dósir af gosdrykk með sætuefninu daglega til þess að vera í hættu. Eftirlitsstofnanir beggja vegna Atlantsála hafa byggt á þeim tilmælum.

Matvælaframleiðendur hafa verið ósáttir við að álit IARCA rugli neytendur og veki hjá þeim óþarfa ótta. Stofnunin hefur áður skilgreint rautt, kjöt, næturvinnu og farsíma sem mögulega krabbameinsvaldandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×