Í tilkynningu ráðuneytisins eru Íslendingar í landinu hvattir til þess að fara varlega og fylgjast með gangi mála í fjölmiðlum. Vísir hefur ekki náð í Svein H. Guðmarsson upplýsingafulltrúa ráðuneytisins en eins og fram hefur komið hafa Wagner málaliðar nú beint spjótum sínum að rússneskum stjórnvöldum.
Íslendingar í Rússlandi eru hvattir til að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Það er hægt að gera með því að senda póst á netfangið hjalp@utn.is eða með því að hringja í símanúmerið +354 545 0112.
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins vekur athygli á því að helstu vinaþjóðir Íslands vara enn við ferðum til Rússlands. Þá er eindregið varað við ferðum til Úkraínu, sérstaklega til svæða þar sem átök geisa eða eru undir rússneskum yfirráðum. Möguleikar til að veita íslenskum ríkisborgurum borgaraþjónustu á þeim svæðum eru mjög takmarkaðir.
Ef viðvera íslenskra ríkisborgara í Rússlandi eða Úkraínu er ekki nauðsynleg hvetur borgaraþjónustan þá að endurskoða ferðaáætlun sína. Eru þeir hvattir til að fylgjast með ferðaviðvörunum utanríkisráðuneyta Norðurlanda.