Macchiarini var sakfelldur fyrir grófar líkamsmeiðingar í tilfelli eins sjúklings, en sýknaður hvað varðaði hina tvo, í héraði í fyrra.
Áfrýjunardómstóll kvað upp dóm í málinu í dag og sneri við niðurstöðu lægra setta dómstólsins. Saksóknari í málinu fór fram á það að læknirinn yrði dæmdur til fimm ára fangelsisvistar.
Í niðurstöðukafla dómsins segir að ekki lægi vafi á því að læknirinn hafi talið að aðferð hans myndi bera árangur en hann hafi samt sem áður starfað með saknæmum hætti.
„Rannsókn sýndi fram á að hann hafi gert sér grein fyrir því að aðgerðirnar myndu valda sjúklingum hans líkamstjóni og miska, og að hann hafi látið sér afleiðingarnar í léttu rúmi liggja,“ segir í dóminum.
Í frétt Reuters um dóminn segir að verjendur læknisins hafi ekki viljað tjá sig við miðilinn en að Macchiarini hefði boðað til blaðamannafundar síðar í dag.
Sjö ár eru nú síðan málið rataði í fjölmiðla eftir að uppljóstrari greindi frá aðgerðum Macchiarini með plastbarka. Sjö sjúklinga Macchiarini sem fengu plastbarka grædda í sig eru nú látnir og þurftu háttsettir menn á Karolinska-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi meðal annars að láta af störfum vegna málsins.
Ákæruliðirnir þrír sneru að þremur sjúklingum Macchiarini; 36 ára karlmanni sem búsettur var á Íslandi, þrítugum Bandaríkjamanni og svo 22 ára konu frá Tyrklandi. Macchiarini var upphaflega aðeins sakfelldur fyrir aðgerðina á konunni frá Tyrklandi.