Neytendur

Al­var­leg staða ríki á fá­keppnis­markaði

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ragnar Þór segir alvarlega stöðu ríkja á fákeppnismarkaði.
Ragnar Þór segir alvarlega stöðu ríkja á fákeppnismarkaði. Vísir/vilhelm

Alvarleg staða ríkir á fákeppnismarkaði og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja lítil að sögn formanns VR sem segir vísbendingar um að matvöruverslanir hafi samræmt vöruverð sitt nokkrum dögum áður en ný verðgátt var opnuð almenningi, óásættanlegar. Auka verði samkeppni.

Í gær greindum við frá því að vísbendingar séu um að matvöruverslanir hafi samræmt vöruverð sitt örfáum dögum áður en ný verðgátt var opnuð almenningi, en í sumum tilfellum var verð hækkað þar sem varan reyndist dýrari annars staðar.

Alvarleg staða á fákeppnismarkaði

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR segir slík vinnubrögð óásættanleg.

„Þetta sýnir að það er í sjálfu sér ekkert aðhald eða lítið, eða samfélagsábyrgð hjá fyrirtækjunum og það er alveg sama hvort við horfum á olíufélögin, dagvöruna, tryggingafélögin eða bankana, þar eru yfirdráttarvextir allir nákvæmlega þeir sömu þannig hér ríkir bara mjög alvarleg staða á markaði, fákeppnismarkaði.“

Vonast til að fyrirtækin nýti gáttina ekki til vafasamra nota

Vinda þurfi ofan af slíku með öllum tiltækum ráðum og auka samkeppni. Verðgáttin var hluti af síðustu kjarasamningum en um er að ræða samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, með það að markmiði að auka aðhald á neytendamarkaði til að halda verðbólgu í skefjum, en í gáttinni er hægt að sjá í hvaða verslunum matarkarfan er ódýrust.

„Auðvitað geta fyrirtækin nýtt sér svona tæki til vafasamra nota með því að nýta það til samráð og annað. Auðvitað vonumst við til að slíkt verði ekki gert og höfum verið að reyna að finna leiðir til að komast hjá því. Við erum farin að gefa þessu miklu meiri gaum, það er að segja hvernig verðlagningin er á lykilkjarnavöru og höfum fundað með stjórnendum dagvörukeðja og Samkeppniseftirlitinu og fleiri aðilum til að sjá hvað við getum gert til að þrýsta á raunverulega samkeppni á markaði.“


Tengdar fréttir

Neytendur geta borið saman matvöruverð þriggja verslunarrisa

Vefurinn Verðgáttin er nú komin í loftið en hún gerir neytendum kleift að fylgjast með þróun verðlags helstu neysluvara í stærstu matvöruverslunum landsins; Bónus, Krónunni og Nettó. Í Verðgáttinni munu neytendur sjá vöruverð gærdagsins og verðsögu vörunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×