Skoðun

Þarf ég að ganga heim?

Máni Þór Magnason skrifar

Sumarið er að ganga í garð. Lóan er komin, góða veðrið á næsta leyti ef veðurguðirnir lofa og næturlíf er að aukast í 101 RVK. Þegar líður á kvöldið fara borgarbúar að týnast heim á meðan fólk sem býr utan Reykjavíkur situr eftir með sárt ennið og á erfitt með að komast heim í bólið. Hvort sem það er búið að vera í leikhúsi, úti að borða, eða á skemmtanalífinu.

Ein helsta ástæða þess er skortur á almenningssamgöngum á nóttinni, en slíka þjónustu er aðeins að fá innan Reykjavíkur. Endurkoma á næturstrætó væru ekki aðeins miklar umbætur á samgöngumálum stórhöfuðborgarsvæðisins, heldur er einnig um mikilvægt öryggismál að ræða. Það á að vera sjálfsagt fyrir okkur öll að komast örugg heim, en þetta takmarkaða aðgengi á almenningssamgöngum ýtir undir að ýmsir hópar fólks finna fyrir óöryggi á nóttunni. Einnig getur þetta leitt til þess að fólk keyri sjálft heim, undir áhrifum áfengis, með þeim hættum sem því fylgir.

En hver er ástæðan fyrir því að nágrannar höfuðborgarinnar hafi ekki endurvakið næturstrætó? Þegar þessari spurningu er kastað fram er oftast vísað í hve kostnaðarsamt það er að halda næturstrætó úti. Ef litið er á kostnaðaráætlun kemur hins vegar annað í ljós, en í upplýsingum frá Strætó má sjá áætlaðan kostnað fyrir nokkur af nágrannasveitafélögum Reykjavíkur, verði þau samtaka um að taka þjónustuna upp, eins og sjá má í töflu hér að neðan.

Í kostnaðargreiningunni er búist við 5 m.kr hagnaði á þjónustunni, miðað við að allir notendur myndu borga tvöfalt strætógjald fyrir þjónustuna, eða um 1100 krónur. Ég vil hvetja þessi bæjarfélög til að hugsa um hagsmuni íbúa sinna og koma þessari nauðsynlegu þjónustu aftur á laggirnar.

Höfundur er ritari Viðreisnar í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×