Erlent

Vigta farþega áður en þeir stíga um borð

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Farþegar Flugfélags Nýja-Sjálands verða beðnir um að stíga á vigtina fyrir innritun í júlí.
Farþegar Flugfélags Nýja-Sjálands verða beðnir um að stíga á vigtina fyrir innritun í júlí. air new zealand

Flugfélag Nýja-Sjálands hyggst vigta alla farþega sem stíga um borð í flugvélar félagsins í júlímánuði. Er það gert til að finna út meðalþyngd farþega. 

„Við vigtum allt sem fer um borð, hvort sem það er farmur, farangur eða matur,“ segir Alastair James, talsmaður flugfélagsins, í samtali við CNN. „Varðandi farþega, áhöfn og handfarangur, þá verðum við að finna það út með þessari lausn.“

Þyngd er mörgum einkamál og ekki eitthvað sem allir vilja upplýsa um. Því verða gögnin öll nafnlaus til að virða friðhelgi einkalífs fólks. 

Farþegar verða beðnir um að stíga á vigt áður en þeir innrita sig í flugið. Upplýsingar um þyngdina verður þá safnað saman án þess að starfsmaður sjái töluna.

„Við vitum að það að stíga á vigtina getur verið yfirþyrmandi en við viljum fullvissa farþega að upplýsingarnar verða ekki sjáanlegar neins staðar. Enginn getur séð þyngd þína, ekki einu sinni við,“ segir James. 

Árið 2021 voru farþegar í innanlandsflugi félagsins einnig beðnir um að stíga á vigina. Könnun á farþegum í millilandaflugi var hins vegar frestað yfir faraldurinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×