Vaxandi spenna hefur verið á milli þjóðarbrota í Kósovó upp á síðkastið, sérstaklega í kjölfar kosninga sem voru haldnar á svæðum þar sem Kósovóar af serbneskum uppruna eru í meirihluta. Þeir hafa aldrei viðurkennt sjálfstæðisyfirlýsingu Kósovó og aðskilnað frá Serbíu árið 2008. Serbar sniðgengu kosningarnar og því hlutu nær eingöngu Kósovóar af albönskum uppruna brautargengi. Kjörsókn var aðeins um 3,5 prósent.
Þjóðernissinnaðir Serbar reyndu að hindra för nýkjörinna bæjarstjóra við stjórnarbyggingar í gær. Serbnesku mótmælendurnir köstuðu gas- og blossasprengjum í friðargæsluliða NATO, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Kósovóskir lögreglumenn skutu táragasi á mótmælendurna í bænum Zvecan, um 45 kílómetra norður af höfuðborginni Pristina í gær.
Beinbrot og bruna- og skotsár
NATO segir að þrjátíu friðargæsluliðar hafi særst, ellefu Ítalir og nítján Ungverjar. Þeir hlutu meðal annars beinbrot og brunasár af völdum heimagerðar sprengna mótmælendanna. Þrír ungverskir hermenn hafi verið skotnir en þeir væru ekki lífshættulegar sárir, að sögn AP-fréttaveitunnar.
Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, fullyrðir að 52 Serbar hafi særst í átökunum, þar af þrír alvarlega. Hann dvaldi með hermönnum sínum við landamærin að Kósovó í nótt. Serbneski herinn hefur verið í viðbragðsstöðu frá því í síðustu viku.
Stjórnvöld í Pristina saka Vucic um að ala á sundrungu í Kósovó. Vucic segir kósovósk stjórnvöld bara ábyrgð á ástandinu með því að halda því til streitu að albanskir bæjarstjórar tækju með embætti eftir kosningarnar.
Serbar og Kósovóar hafa eldað grátt silfur saman um áratugaskeið. Til vopnaðra átak akom þegar albanskir aðskilnaðarsinnar gerðu uppreisn árið 1998. Serbnesk stjórnvöld brugðust við af mikilli hörku. NATO hrakti serbneska hermenn út úr Kósovó árið 1999. Um þrettán þúsund manns féllu í átökunum, langflestir þeirra albanskir Kósovóar.
Bandaríkin og flest Evrópuríki viðurkenna Kósovó sem sjálfstætt ríki en það gera hvorki Serbía, Rússland né Kína.