Fyrri leik liðanna lauk með jafntefli, 22-22, og því var ljóst að sigurvegari kvöldsins myndi komast áfram í undanúrslitin sem fram fara í Köln í Þýskalandi líkt og úrslitaleikurinn sjálfur.
Leikur kvöldsins var hnífjafn framan af og var staðan jöfn 13-13 í hálfleik. Það var í raun ekki fyrr en um miðbik síðari hálfleiks sem heimamenn náðu loks tveggja marka forystu og hana létu þeir ekki af hendi. Lokatölur 30-28 og Magdeburg komið áfram.
Kay Smits fór hamförum í liði Magdeburg í kvöld en hann skoraði 14 mörk á meðan Michael Damgaard skoraði átta mörk. Bæði Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon voru fjarverandi vegna meiðsla í kvöld.
Síðar í kvöld kemur í ljós hvort París Saint-Germain eða Kiel komist áfram í undanúrslit. Á morgun tekur Kielce á móti Bjarka Má Elíssyni og félögum í Veszprém á meðan Barcelona mætir GOG.