Neytendur

Ilva var heimilt að kalla út­sölu á Korpu­torgi „rýmingar­sölu“

Atli Ísleifsson skrifar
Málið sneri að auglýsingum Ilva í aðdraganda flutnings verslunarinnar á Korputorgi í Reykjavík í Kauptún í Garðabæ.
Málið sneri að auglýsingum Ilva í aðdraganda flutnings verslunarinnar á Korputorgi í Reykjavík í Kauptún í Garðabæ. Vísir/Vilhelm

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Neytendastofu frá síðasta sumri vegna kynninga Ilva um rýmingarsölu.

Málið sneri að auglýsingum Ilva í aðdraganda flutnings verslunarinnar á Korputorgi í Reykjavík í Kauptún í Garðabæ.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að auglýsingar Ilvu um rýmingarsölu snemma 2022 hafi ekki staðist reglur um útsölur og að Ilva hafi verið óheimilt að auglýsa útsöluna sem „rýmingarsölu“.

Í umræddum auglýsingum auglýsti Ilva „Rýmingarsala“, „Eingöngu í verslun á Korputorgi“, „70-80% afsláttur af öllum vörum“ og „70-80% afsláttur af vörum sem hætta og sýningareintökum“.

Ilva var ósammála niðurstöðunni og taldi sig vera í fullum rétti að auglýsa „rýmingarsölu“, enda hafi hún átt sér stað í tengslum við að fyrirtækið hafi hætt rekstri verslunar sinnar á Korputorgi og að útsalan hafi einungis tekið til vara sem boðnar voru til sölu í þeirri verslun. Ákvað fyrirtækið að áfrýja ákvörðuninni til áfrýjunarnefndarinnar.

Áfrýjunarnefnd taldi orðalag útsölureglna ekki koma í veg fyrir að kynnt væri rýmingarsala þegar verslun flytur sig um set auk þess sem markaðssetning Ilva hafi verið skýr um að verðlækkun ætti eingöngu við um vörur í verslun á Korputorgi. Þá féllst nefndin ekki á að Ilva væri óheimilt að selja vörur sem boðnar voru á lækkuðu verði á rýmingarsölu í Korputorgi á fullu verði í öðrum verslunum,“ segir á vef Neytendastofu um úrskurð nefndarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×