Erlent

FDA leggur blessun sína yfir fyrsta bólu­efnið gegn RS vírus

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vírusinn veldur oftast hefðbundnum kvefeinkennum en getur verið hættulegur ungum börnum.
Vírusinn veldur oftast hefðbundnum kvefeinkennum en getur verið hættulegur ungum börnum. Getty

Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur lagt blessun sína yfir bóluefni gegn RS vírus, algengri kvefveiru sem er yfirleitt tiltölulega meinlaus en getur valdið dauða hjá ungabörnum og eldra fólki.

Um er að ræða fyrsta bóluefnið gegn RS vírus sem er samþykkt af FDA en vonir standa til að það verði fáanlegt innan nokkurra mánaða, eftir að Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur sömuleiðis gefið samþykki sitt.

Bóluefni ber heitið Arexvy og er framleitt af breska lyfjafyrirtækinu GSK.

Fjöldi fólks smitast af RS vírus á hverju ári og flestir hafa fengið vírusinn að minnsta kosti einu sinni áður en þeir ná tveggja ára aldri. Yfirleitt veldur vírusinn hefðbundnum kvefeinkennum en hann getur lagst illa á börn og eldra fólk og valdið berkjubólgu og öndunarerfiðleikum.

Í Bandaríkjunum látast 100 til 300 börn undir fimm ára aldri af völdum vírusins á hverju ári og 6.000 til 10.000 einstaklingar 65 ára og eldri. Þá má rekja 60.000 til 120.000 þúsund sjúkrahúsinnlagnir til sjúkdómsins árlega.

Virkni bóluefnisins er sagt 82,6 prósent og algengustu aukaverkanirnar eru sársauki á stungustað og þreyta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×