Innlent

Fallist á gæslu­varð­hald yfir mönnunum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Mennirnir voru handteknir á fimmtudaginn.
Mennirnir voru handteknir á fimmtudaginn. Vísir/Magnús Hlynur

Héraðsdómur Suðurlands hefur fallist á kröfur Lögreglustjórans á Suðurlandi um gæsluvarðhald yfir tveimur karlmönnum sem voru handteknir í tengslum við rannsókn á andláti konu í heimahúsi á Selfossi. Verða mennirnir í gæsluvarðhaldi til 5. maí næstkomandi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef lögreglunnar. Þar segir að rannsóknin haldi áfram að fullum þunga og að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið. 

Mennirnir voru handteknir á fimmtudaginn eftir að lögreglu barst tilkynning um andlátið. Konan var á þrítugsaldri líkt og báðir mennirnir. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þeir hálfbræður.

RÚV greinir frá því að mennirnir muni báðir að kæra gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar.

Tilkynning lögreglunnar í heild sinni:

Rétt í þessu féllst dómari við Héraðsdóm Suðurlands á kröfu Lögreglustjórans á Suðurlandi um gæsluvarðhald yfir þeim tveimur karlmönnum sem handteknir voru í tengslum við rannsókn lögreglu á andláti í heimahúsi á Selfossi í fyrradag. Eins og fram hefur komið var krafan sett fram fyrir Hérðasdómi Suðurlands í gærdag og boðaði dómari til þinghalds til að úrskurða um kröfuna á ellefta tímanum í dag.

Mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðahald til 5. maí næstkomandi á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Rannsókn lögreglu heldur áfram af fullum þunga og hefur Lögreglustjórinn á Suðurlandi notið aðstoðar m.a. tæknideildar lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu sem og Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Ekki er hægt að veita frekari uppýsingar vegna málsins á þessari stundu vegna ríkra rannsóknarhagsmuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×