Húsnæði síðan í fjármálakreppunni
Íbúðirnar sem Pedro Sánchez, forsætisráðherra landsins, ætlar að dæla út á leigumarkaðinn, eru í eigu ríkisbankans SAREB, sem var stofnaður í miðri fjármála- og fasteignakreppunni árið 2012. Bankinn sópaði upp eigum þrotabúa og hefur það hlutverk að halda utan um lán og eignir gjaldþrota fyrirtækja og koma þeim í verð og út á markaðinn. Þar á meðal eru tugþúsundir fasteigna.
Ný húsnæðislög voru samþykkt í fyrradag
Húsnæðisfrumvarp ríkisstjórnarinnar sem var samþykkt sem lög frá spænska þinginu á fimmtudag, setur þriggja prósenta þak á hækkun leiguverðs á næsta ári og gerir ráð fyrir að svipað þak verði á hækkunum leigu á næstu árum. Búin verður til ný vísitala til að ákvarða leiguverð og hækkun þess, og verðbólguaukningu þannig kippt úr sambandi. Á síðasta ári var sett tveggja prósenta þak á leyfilega hækkun húsaleigu til að reyna að stemma stigu við hratt vaxandi verðbólgu í landinu, en hún er nú aftur á niðurleið.
Húsnæðismál eru eitt stærsta vandamál Spánar
Hátt leigu- og fasteignaverð og mikið atvinnuleysi er eitt helsta vandamál ungs fólks og tekjulágra á Spáni. Ungt fólk neyðist oft til að búa hjá foreldrum sínum langt fram eftir fullorðinsárunum.
Sakaður um lýðskrum í aðdraganda kosninga
Rétt er að hafa í huga að sveitarstjórnarkosningar og héraðskosningar sjálfsstjórnarhéraðanna fara fram á Spáni í næsta mánuði og þingkosningar síðar á árinu. Húsnæðismál eru á forræði sjálfsstjórnarhéraðanna og því með öllu óvíst hversu vel Sanchez og sósíalistum tekst að uppfylla loforð þessa frumvarps. Hægri flokkurinn, Partido Popular, heldur víða um stjórnvölinn á Spáni og hann hefur lýst mikilli andstöðu við þessar hugmyndir vinstri manna. Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem stjórnvöld lofa einhverju í aðdraganda kosninga sem þeim reynist ekki unnt að standa við.