Erlent

Nakinn leigu­sali ekki lög­mæt for­senda leigu­lækkunar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Að mati dómsins þurfti fólk á skrifstofunni að hafa fyrir því að sjá manninn nakinn. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Að mati dómsins þurfti fólk á skrifstofunni að hafa fyrir því að sjá manninn nakinn. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty

Að mati dómstóls í Þýskalandi er það ekki lögmæt forsenda til leigulækkunar að leigusalinn eigi það til að fara allsber í sólbað í garðinum. Fyrirtæki sem leigði hæð í húsi mannsins neitaði að borga leigu vegna athæfisins. 

The Guardian greinir frá þessu. Maðurinn á húsnæði í Frankfurt og leigði hæð í húsinu til mannauðsfyrirtækis. Vildi fyrirtækið ekki greiða leigu þar sem maðurinn var oft nakinn í garðinum í sólbaði. Að mati fyrirtækisins var það truflandi fyrir starfsmenn og því forsenda til leigulækkunar. 

Að mati dómara var einungis hægt að sjá manninn nakinn frá skrifstofunni ef einhver hallaði sér verulega út um gluggann. Fyrirtækið hélt því fram að maðurinn hafi einnig ávallt verið nakinn er hann gekk frá íbúð sinni út í garðinn en að mati dómara tókst fyrirtækinu ekki að sanna það. Þvert á móti hafi maðurinn verið afar sannfærandi þegar hann hélt því fram að hann væri alltaf klæddur í slopp á göngunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×