Innlent

Á­reitti fólk við verslunar­kjarna og stal bíl

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu náði manninum síðar um kvöldið og var hann vistaður í fangageymslu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu náði manninum síðar um kvöldið og var hann vistaður í fangageymslu. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk í gær tilkynningu um mann sem var að áreita fólk við verslunarkjarna. Stuttu síðar stal sami maður bíl sem hafði verið skilinn eftir í gangi fyrir utan veitingastað. Lögreglunni tókst að finna bílinn og stöðvuðu för mannsins. Var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa, grunaður um nytjastuldur, akstur undir áhrifum, eignaspjöll og akstur án réttinda. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem farið er yfir verkefni hennar frá klukkan 17 í gær þar til klukkan fimm í nótt. 

Tilkynnt var um nokkrar líkamsárásir, þar af eina í heimahúsi. Fór lögregla á vettvang og ræddi við aðila málsins. 

Lögreglu á lögreglustöð 4, sem sér um Grafarvog, Mosfellsbæ og Árbæ, var tilkynnt um tvo menn í annarlegu ástandi sem gengu á milli bifreiða og virtust vera að reyna að komast yfir verðmæti. Lögreglan ræddi við mennina sem voru svo handteknir með verðmæti sem lögregla telur vera þýfi. Voru þeir því vistaðir í fangaklefa. 

Þá var á sömu stöð tilkynnt um þjófnað á töluverðu magni af eldsneyti úr tveimur bifreiðum. Ekki kemur fram hvort þjófarnir hafi fundist. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×