Þróttur R. leikur í Lengjudeildinni eftir að hafa komið upp úr 2. deildinni á síðustu leiktíð. Það var ekki að sjá í kvöld þegar liðið þrammaði upp í Úlfarsárdal og lagði fyrrum nágranna sína fram, lokatölur 2-3.
Hinn ungi Emil Skúli Einarsson kom Þrótti yfir snemma leiks en Akureyringurinn Orri Sigurjónsson jafnaði fyrir Fram. Emil Skúli kom Þrótti aftur yfir eftir hálftíma leik og Izaro Abella Sanchez kom gestunum 3-1 yfir áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks. Tiago Fernandes minnkaði muninn fyrir Fram í síðari hálfleik en þar við sat, lokatölur 2-3 og Þróttur R. komið áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins.
Arnar Grétarsson gerði fjölda breytinga á Valsliðinu sem vann 5. deildarlið RB aðeins 4-1 á Hlíðarenda. Tvö síðustu mörkin komu þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Hilmir Starri Hilmarsson, Þorsteinn Emil Jónsson, Haukur Páll Sigurðsson og Lúkas Logi Heimisson skoruðu mörk Vals.
Í Garðabænum var ÍBV í heimsókn. Hvorki gestunum frá Eyjum né heimamönnum í Stjörnunni tókst að skora í venjulegum leiktíma, því var framlengt. Bjarki Björn Gunnarsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í liði ÍBV. Gestirnir kláruðu leikinn því manni færri og treystu á að komast alla leið í vítaspyrnukeppni.
Sindri Þór Ingimarsson með mark fyrir Stjörnumenn á lokasekúndum leiksins. Stjarnan er á leið í 16 liða úrslit! pic.twitter.com/3dt1sYlBRK
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) April 19, 2023
Það var svo ekki fyrr en tvær mínútur voru komnar fram yfir þær 30 mínútur sem framlengingin er þegar Stjarnan skoraði loks það sem reyndist sigurmarkið. Það gerði miðvörðurinn Sindri Þór Ingimarsson og tryggði heimamönnum sæti í 16-liða úrslitum.
Að lokum skoraði Stefan Ljubicic eina markið í leik Keflavíkur og ÍA en þar þurfti einnig að framlengja. Keflavík komið áfram.
Keflvíkingar leiða eftir mark Stefáns Ljubicic! pic.twitter.com/slEqscMl0W
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) April 19, 2023
Markarskorarar af Fótbolti.net.