„Þetta er í eins góðum farvegi og hægt er,“ segir Gauti Jóhannesson, formaður stjórnar Ríkarðshúss og fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings á Djúpavogi. Stefnt er að því að safnið verið flutt í húsnæði er kallast Sambúð en húsnæðismál safnsins voru ástæða fyrir því að gjöfinni var rift á sínum tíma.
Einbýlishús, jörð og flygill
Fréttablaðið greindi frá því í júní árið 2021 að gjöfin hefði verið dregin til baka. Um er að ræða einbýlishús í Reykjavík, jörð í Mosfellsbæ, sumarhús í Hveragerði, stóran flygil, málverk eftir listamenn á borð við Jóhannes Kjarval og Finn Jónsson og ótal verk eftir Ríkarð Jónsson, fyrsta og einn fremsta myndhöggvara og útskurðarmeistara Íslands. Meðal verka Ríkarðs eru fundarhamar Sameinuðu þjóðanna og fyrsta landvættarskjaldarmerki Íslands.
Ásdís og tvíburasystir hennar Ólöf vildu gefa eigur sínar til þess að koma safni föður síns á laggirnar. Var gert samkomulag við Djúpavogshrepp þar að lútandi árið 2012. Gjöfin átti að verða arfur til safnsins við andlát systranna. Ólöf er nú látin en Ásdís verður 101 árs í sumar.
Ríkarður bjó lengst af í Reykjavík og hafði sína vinnustofu við Grundarstíg en hann var fæddur í Hamarsfirði við Djúpavog. Því var safnið sett þar á fót. Vildu systurnar að safnið hefði útsýni yfir Búlandstindinn.
Sýning í sumar
Framan af var erfitt að finna hentugt húsnæði fyrir Ríkarðshús og afar dýrt hefði verið að byggja nýtt hús undir safnið. Um tíma var safnið í húsi er kallast Langabúð, sem systurnar voru ekki sáttar við sem framtíðarhúsnæði safnsins. Heldur ekki svokallað Faktorshús sem sveitarstjórn hugðist koma safninu fyrir í um tíma. Annað húsnæði, Vogaland 5, kom til greina en þangað flutti listasafnið Ars Longa.

Í umfjöllun Fréttablaðsins í mars árið 2022 kom fram að heimastjórn Djúpavogs vildi leysa húsnæðiskapalinn og koma Ríkarðshúsi fyrir í húsi er kallast Sambúð, sem er hrátt húsnæði sem hýsir meðal annars björgunarsveitina og Rauða krossinn. Voru systurnar sáttar við það húsnæði, meðal annars út af staðsetningunni og útsýninu. Hefur það núna orðið raunin.