Magnús Hlynur Hreiðarsson, fréttamaður okkar á Selfossi, var furðu lostinn þegar hann vaknaði í morgun: „Eruð þið ekki að grínast? Hvar er vorið?“
Hann segir að það hafi snjóað ótrúlega mikið í morgun en virðist hafa minnkað aðeins núna.
„Mér var brugðið þegar ég fór á fætur um klukkan 06:30 í morgun, allt í snjó, ég hélt að þetta væri draumur. Það þarf að skafa af öllum bílum í dag á svæðinu, það er nokkuð ljóst. Í gær var hér sex stiga hiti og sól og fólk út um allt á gangi tilbúið í vorið en það er eitthvað allt annað í dag. Þetta tekur vonandi fljótt af.“

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur Vegagerðarinnar, segir að bakki með þéttri snjókomu fari austur með suðurströndinni í dag. Á Austfjörðum vaxi vindur af austri seinni partinn og reikna megi með ofanhríð og skafrenningi í nótt og alveg fram til morguns. Vindur á bilinu 10 til 18 metrum á sekúndu.
Veðurstofan hefur varað við því að gera megi ráð fyrir samgöngutruflunum vegna snjókomu og slæms skyggnis.