Handbolti

„Vonandi verður þetta gott skref fyrir mig“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jónatan heldur til Svíþjóðar í sumar.
Jónatan heldur til Svíþjóðar í sumar. Vísir/Hulda Margrét

„Þetta er búið að vera í samtali við þennan klúbb í einhverjar vikur. Endanlega í dag var þetta klárt,“ sagði Jónatan Magnússon, núverandi þjálfari KA í Olís deild karla í handbolta en í dag var staðfest að hann muni taka við sænska liðinu Skövde í sumar.

Jónatan ræddi vistaskiptin við Stöð 2 og Vísi. Sjá má viðtalið í heild sinni neðst í fréttinni.

„Langaði að skoða mína möguleika og ákvað að vera snemma með það í kringum áramótin að sjá hvort það væri eitthvað svona. Er eitthvað sem mig langar að gera. Langaði að kanna hvort það væri möguleiki og úr varð þetta. Hljómaði mjög vel, er rótgróinn klúbbur í miklum handboltabæ og spennandi verkefni.“

„Það eru 2-3 lið sem eru toppliðin í Svíþjóð. Skövde hefur verið að gæla við það, sem dæmi fóru þeir alla leið í úrslit í úrslitakeppninni fyrir tveimur árum. Myndi segja að þessi klúbbur væri vel rekinn og spennandi sem stjórnin og þeir sem stýra klúbbnum lögðu upp með. Ágætis blanda af mannskap líka, bæði ungir leikmenn á uppleið sem hentar mér mjög vel.“

Hefur Jónatan skoðað og legið yfir liðinu?

„Hef ekki gert það, eðlilega ekki. Er í þessu verkefni hér, bæði með KA liðið og yngri flokkana. Þegar klárast hjá okkur þá fer maður að skoða það. Gerði þriggja ára samning og vonandi verður þetta gott skref fyrir mig.“

KA er í 10. sæti Olís deildar karla með 11 stig að loknum 19 leikjum. Ljóst er að liðið er ekki á leið í úrslitakeppnina.

Klippa: Jónatan Magnússon: Vonandi verður þetta gott skref fyrir mig



Fleiri fréttir

Sjá meira


×