Innlent

Rússar skjóta föstum skotum á utan­ríkis­ráð­herra

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra heimsótti Úkraínu fyrr í mánuðinum.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra heimsótti Úkraínu fyrr í mánuðinum. Vísir/Ívar

Rússneska sendiráðið í Reykjavík skýtur föstum skotum á „nýja tísku“ í orðfæri íslenskra embættismanna í tengslum við innrás Rússa í Úkraínu. Sendiráðið nefnir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra sérstaklega, sem notaði orðin „þið megið fokka ykkur,“ í tengslum við baráttuanda Úkraínumanna gegn Rússum. Orðin voru ekki hennar eigin, að sögn ráðherrans.

Þórdís Kolbrún fór með tölu á ráðstefnu um alþjóðasamstarf og þjóðaröryggi í Hörpu í gær, þar sem hún lýsti meðal annars heimsókn sinni til Úkraínu fyrir skömmu: „Úkraína neitaði að gef­ast upp: „Rúss­neski floti, þið megið fokka ykk­ur“ endurómaði um sam­fé­lagið,“ hefur mbl.is eftir ráðherranum. Samkvæmt miðlinum á Þórdís Kolbrún að hafa sagt að orðbragðið væri ekki hennar eigið, enda væri það ráðherra ekki sæmandi.

Rússneska sendiráðið virðist ekki hafa tekið mark á fyrirvara ráðherra og birti færslu á Facebook fyrr í dag, þar sem sendiráðið skýtur föstum skotum á meinta vanhæfni íslenskra stjórnvalda til að átta sig raunverulega á stöðunni í Úkraínu.

„Orðbragð íslenskra embættismanna, nánar til tekið orð Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur utanríkisráðherra á ráðstefnu um alþjóðasamstarf og þjóðaröryggi í gær, hefur ekki farið fram hjá okkur. Þetta er lýsandi fyrir vanhæfni íslenskra stjórnvalda, bæði í tengslum við órökstudda gagnrýni  í garð Rússa og vanhæfni til að sýna að þau átti sig á stöðunni. Við munum hafa þessa „nýjustu tísku“ í huga við mat á stöðu okkar í samskiptum við Ísland.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×