Innlent

Erfitt að meta þjónustuþörfina í gistiskýlum og þörf á fleiri úrræðum

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar hjá Reykjavíkurborg,  telur ríki og sveitarfélög geta gert betur og fagnar aðkomu heilbrigðisráðherra. 
Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar hjá Reykjavíkurborg, telur ríki og sveitarfélög geta gert betur og fagnar aðkomu heilbrigðisráðherra.  Vísir/Arnar

Fjölgað hefur í hópi heimilislausra með fjölþættan vanda sem leita í gistiskýli borgarinnar en takmarkað er hversu mikla þjónustu hægt er að veita þar. Framkvæmdastjóri hjá borginni segir þörf á fleiri úrræðum og kallar eftir aðkomu ríkis og sveitarfélaga. Stórefla þurfi heilbrigðisþjónustu fyrir hópinn en heilbrigðisráðherra boðar meðal annars varanlegt neyslurými.

Nokkur úrræði eru til staðar fyrir heimilislausa einstaklinga með fjölþætta vanda á höfuðborgarsvæðinu en gistiskýlin eru fyrsta stopp marga. Á höfuðborgarsvæðinu eru þrjú gistiskýli fyrir heimilislausa, þar af rekur Reykjavíkurborg eitt á Lindargötu og eitt á Granda. Þá rekur Rótin Konukot.

Úrræðin eru vel nýtt að sögn Sigþrúðar Erlu Arnardóttur, framkvæmdastjóra Vesturmiðstöðvar hjá Reykjavíkurborg en um hundrað manns í heildina eru í hópi þeirra sem leita í gistiskýlin.

Klippa: Stórefla þurfi heilbrigðisþjónustu fyrir heimilislausa

„Þetta eru um fimmtíu pláss, sem að við erum með á hverri nóttu sem standa opin einstaklingum sem að eru í neyð. Það hefur verið þó nokkur aðsókn og núna undanfarna mánuði höfum við verið að sjá aukningu á þeim sem eru að koma inn og þurfa á þjónustu að halda,“ segir Sigþrúður Erla.

Misjafnt er hvert fólk leitar. Á Granda eru það helst karlmenn með vímuefnavanda og á Lindargötu eru það helst karlmenn sem glíma við langtímaneyslu, til að mynda áfengis. Í Konukoti eru að lokum konur með alls kyns vanda. Þó eru einhverjir sem að eru ekki í neyslu en þurfa engu að síður á aðstoð að halda.

„Við reynum að horfa á stöðu hvers og eins og fara inn í samtalið eftir því sem viðkomandi treystir sér í. Fyrir þá sem eru búnir að koma hérna í nokkur skipti þá eru starfsmenn á staðnum sem þekkja vel til og við reynum að koma viðkomandi strax í samtal við félagsráðgjafa sveitarfélagsins og reyna að fá einhverja áætlun í hans máli,“ segir Sigþrúður.

Í grunninn sé þó um neyðarúrræði að ræða og eðli málsins samkvæmt takmarkað hversu mikið hægt er að hjálpa eða meta þörfina að hverju sinni. Verið sé að vinna í endurskoðun á aðgerðaráætlun borgarinnar í málaflokknum og stefnumótun í fullum gangi en þörf sé á fleiri úrræðum.

„Í neyðarskýlinu eru bara það margir og það er það mikið áreiti að það er erfitt að meta nákvæmlega hver þjónustuþörfin er eða hvaða stuðning þú þarft. En við viljum gjarnan setja upp þrepaskipt kerfi þannig við getum betur áttað okkur á hver þörfin er hjá hverjum og einum,“ segir Sigþrúður og bendir á að þau leggi til að mynda mikla áherslu á þrepaskipt húsnæði.

Auka þurfi heilbrigðisþjónustu til muna

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra greindi frá því í kvöldfréttum í gær að þörf væri á heildstæðri stefnu í málaflokknum en hann ætli að stofna starfshóp til að móta aðgerðaráætlun fyrir hópinn. Vonaðist hann til að geta lagt afraksturinn fyrir þingið í vetur.

Þörf væri á skaðaminnkandi úrræði og að fólk með alvarlegan vímuefnavanda gæti jafnvel fengið og notað morfín undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks. Neyslurýmið Ylja hafi gefið góða raun hvað það varðar en í síðasta mánuði var greint frá því að það myndi loka eftir að hafa verið starfandi í eitt ár.

Ráðherrann tilkynnir nú að varanlegu neyslurými verði komið á fót og fjármagn í það verið tryggt.

„Við erum í samtali við velferðarsvið Reykjavíkurborgar um að finna staðinn, það er búið að tryggja 50 milljónir í reksturinn af okkar hálfu. síðan höfum við fjármagnað tvö stöðugildi hjúkrunarfræðinga og það er líka verið að vinna í því að vera með aukna heilbrigðisþjónustu á vettvangi, meðal annars tilraunarverkefni í Konukoti og það gæti síðan verið nánari útfærsla á því þegar við finnum þessu stað,“ segir Willum.

Sigþrúður segir þetta skref í rétta átt en þegar hafi einn hjúkrunarfræðingur verið ráðinn til að sinna hjúkrun á vettvangi og bíða þau spennt eftir að geta farið af stað.

„Við bara fögnum öllu samstarfi varðandi það og við þurfum einmitt að huga að því virkilega hvernig ætlum við að vera með heilbrigðisþjónustu fyrir þennan hóp,“ segir Sigþrúður. „Hvernig við ætlum að þjónusta hópinn til þess að vera með þessa skaðaminnkandi nálgun, því þetta er ekki hópur sem hættir einn tveir og þrír.“

Ljóst sé að margt mætti betur fara en fleiri sveitarfélög þurfi meðal annars að taka þátt.

„Okkur vantar heildarstefnumótun, ekki bara fyrir sveitarfélagið heldur líka fyrir Ísland og ríkið þarf að koma þar að. Ef við náum því að koma einhvern veginn fleiri að þessu borði þá held ég að við getum gert mun betur,“ segir Sigþrúður.

Ítarlega var fjallað um málefni heimilislausra í Kompás þar sem innsýn var fengin inn í daglegt líf nokkurra einstaklinga á götunni og lífsbaráttuna sem einkennir hvern einasta dag.


Tengdar fréttir

Missti allt í bruna og fær enga hjálp: „Mig langar ekki að vera fastur þar sem ég kemst ekkert áfram“

Heimilislaus karlmaður sem missti allt sitt í bruna í smáhýsi á Granda í síðasta mánuði segist ekki eiga í nein hús að venda og upplifa mikið óöryggi. Hann þrái að vinna í sínum málum en komist ekki áfram þar sem úrræðaleysið sé algjört. Öruggt húsnæði myndi gera honum kleift að fá átta ára son sinn í heimsókn, vinna í eigin bata og fara í skóla. 

Rannsaka eigi gagnsemi þess að gefa veikasta hópnum morfín

Hrinda ætti af stað rannsókn hér á landi þar sem fólki með alvarlegan og langvarandi ópíóíðavanda væri gefið morfín undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks, að mati sérfræðings í skaðaminnkun. Sambærileg viðhaldsmeðferð hafi gefið mjög góða raun í nágrannalöndum.

„Við erum að sjá að fólk er að deyja“

Það er lífsnauðsynlegt að opna dagsetur fyrir heimilislausa þar sem menn geta leitað skjóls, ræktað áhugamálin sín og fengið viðeigandi aðstoð. Þetta segir foringi hjá Hjálpræðishernum sem gagnrýnir stjórnmálamenn fyrir seinagang.

„Gætu losnað undan hælnum á þeim sem útvegar efnin“

Fleiri konur og með þyngri vímuefnavanda leita nú í Konukot en áður. Forstöðukona segir þær lifa undir hælnum á fólki sem útvegar þeim efnin og telur brýna þörf á sérhæfðari úrræðum og nýrri nálgun gagnvart fólki með fíknisjúkdóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×