Gabríella gekk á land á Norðureyju á sunnudag og fór suður með austurströndinni í kringum Auckland, fjölmennustu borg landsins. Bylnum fylgdi úrhellisrigning og aurskriður sem skolaði burt brúm, sveitabæjum, búfénaði og sökkti íbúðarhúsum þannig að íbúar sátu fastir á húsþökum.
Rúmlega 4.500 manns voru enn á lista lögreglu yfir fólk sem vinir og fjölskylda hafa ekki náð sambandi við frá því að bylurinn gekk yfir. Lögregla telur að flestir þeirra séu einfaldlega sambandslausir. Fjöldi bæja einangraðist í hamförunum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Við verðum að búa okkur undir þá staðreynd að líklega verði fleiri dauðsföll um landið vegna þessa. Við munum ekki vita umfangið í einhvern tíma,“ sagði Hipkins í dag. Hann sagðist þó ekki eiga von á að mannskaðinn verði mun meiri.
Tugir þúsunda heimila eru enn án rafmagns eftir það sem Hipkins kallar verstu náttúruhamfarirnar á Nýja-Sjálandi á þessari öld. Bílalestir reyna nú að koma neyðargögnum til afskekktra byggða og herin notar skip og flugvélar til vöruflutninga til hamfarasvæðanna.
Búið er að koma upp tveimur bráðabirgðalíkhúsum í Hawke-flóa sem varð einna verst úti í fellibylnum. Það er aðallega landbúnaðarsvæði en þar eru einnig nokkrir bæir.
Ástralir hafa sent 25 manna teymi séfræðinga í viðbrögðum við náttúruhamförum til þess að aðstoða nýsjálensk yfirvöld, að sögn AP-fréttastofunnar.
Aðeins tvær vikur eru frá því að fjórir fórust í miklu óveðri sem gekk yfir Auckland.