Handbolti

Fengu Evrópumeistara í staðinn fyrir heimsmeistara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Oscar Bergendahl og félagar í sænska landsliðinu enduðu í 4. sæti á nýafstöðnu heimsmeistaramóti.
Oscar Bergendahl og félagar í sænska landsliðinu enduðu í 4. sæti á nýafstöðnu heimsmeistaramóti. getty/Michael Campanella

Magdeburg hefur fengið sænska línumanninn Oscar Bergendahl frá Stuttgart. Samningur hans við þýsku meistarana tekur samstundis gildi.

Danski heimsmeistarinn Magnus Saugstrup meiddist í lokin á bikarleik gegn Kiel á dögunum og spilar líklega ekki meira með Magdeburg á þessu tímabili.

Magdeburg þurfti því að hafa hraðar hendur til að finna staðgengil Saugstrups og samdi við Bergendahl sem var nýkominn til Stuttgart. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við Magdeburg. 

Þar hittir hann fyrir íslensku landsliðsmennina Gísla Þorgeir Kristjánsson og Ómar Inga Magnússon sem spilar reyndar ekki meira með á tímabilinu vegna meiðsla. Í stað hans fékk Magdeburg svartfellsku skyttuna Vladan Lipovina.

Bergendahl átti frábært ár í fyrra. Hann varð fyrst Evrópumeistari með sænska landsliðinu og valinn besti varnarmaður EM. Bergendahl varð svo danskur meistari með GOG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×