Inga Tinna býr í sannkallaðri lúxus þakíbúð með stórum svölum, fallegu útsýni og heitum potti. Íbúðin er rúmlega 200 fermetrar og opnast lyfta beint inn íbúðina. Þegar Inga Tinna keypti íbúðina var hún tilbúin til innréttingar. Hún ákvað að fá ekki arkitekt í verkið, heldur hanna rýmin alveg sjálf.
„Ég horfði á þetta og byrjaði að sjá rýmin svolítið fyrir mér en svo auðvitað bara þróaðist þetta með tímanum,“ segir hún. „Mig langaði alltaf að prófa eitthvað svona sjálf. Mig langaði alltaf í innanhússhönnun, þegar ég ákvað að fara síðan í verkfræðina. Ég ætlaði reyndar líka í leiklistarskóla,“ segir hin fjölhæfa Inga Tinna sem starfaði einnig sem flugfreyja.

„Pælingin var svona svolítið Manhattan style“
Eins og áður segir er íbúðin stór og ákvað Inga Tinna því að bregða á það ráð að brjóta hana upp með upphækkuðum pöllum. Íbúðin mátti vel við því, enda lofthæðin rúmir þrír metrar. Pallarnir eru svo lýstir upp og gefur það íbúðinni einstakt yfirbragð.
„Pælingin var svona svolítið Manhattan style af því þetta er penthouse. Horfa ofan í stofuna, líka bara bæta útsýnið enn meira með því að vera hærra uppi,“ segir Inga Tinna.
Í þessari lúxus íbúð er meðal annars að finna tvö baðherbergi og hvorki meira né minna en tvö fataherbergi, enda á Inga Tinna nóg af fallegum flíkum, skóm og töskum sem þurfa sitt pláss.
„Þetta er alveg áhugamál og eins og með listina þá finnst mér föt líka vera ákveðin list,“ segir fagurkerinn Inga Tinna sem segir eyða töluverðum tíma inni í fataherberginu.