Handbolti

Vann alla leikina en fær ekki að þjálfa suður-kóresku stelpurnar áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kim Rasmussen er hættur sem landsliðsþjálfari þrátt fyrir sextán sigra í sextán leikjum.
Kim Rasmussen er hættur sem landsliðsþjálfari þrátt fyrir sextán sigra í sextán leikjum. Getty/Lukasz Laskowski

Danski handboltaþjálfarinn Kim Rasmussen fær ekki nýjan samning sem þjálfari suður-kóreska kvennalandsliðsins í handbolta þrátt fyrir gott gengi.

Hinn fimmtugi Rasmussen sagði frá því á samfélagsmiðlum sínum að hann væri hættur þjálfun liðsins eftir aðeins átta mánuði. Hann var ráðinn til starfa í maí 2022. TV2 fjallar um málið.

Samkvæmt Rasmussen þá vann liðið alla sextán leikina undir hans stjórn en það voru bæði æfinga- og keppnisleikir. Rasmussen vann með Bo Rudgaard og þeir fengu fyrst átta mánaða samning. Hann var ekki endurnýjaður.

Ástæðan fyrir því að Rasmussen fékk ekki áframhaldandi samning var að hann vildi hlífa suður-kóresku leikmönnunum of mikið.

„Þetta er alltaf leiðinlegt en þegar upp var staðið þá var menningarmunurinn of erfiður til að vinna með. Eitt af því sem ég geri alltaf er að verja mína leikmenn, sjá til þess að þeir séu í eins góðu formi og þeir geta en um leið að forðast meiðsli,“ skrifaði Kim Rasmussen og vísar þar í deilur hans við suður-kóreska handboltasambandið um æfingaálag.

Handboltasambandið vildi að leikmenn liðsins æfðu þrisvar á dag og þá oft tvo til þrjá tíma í seinn. Rasmussen var ekki sammála þessu og lagði meira upp úr gæðum en magni æfinga.

„Við skiptum út eldri leikmönnum fyrir yngri eins og þeir báðu okkur um en það var ekki nóg. Þá spurði ég mig: Hvað er nógu gott? Hvað gætum við gert meira?“ skrifaði Rasmussen.

Rasmussen hefur þjálfað önnur kvennalandslið eins og landslið Svartfjallalands, Ungverjalands og Pólland. Undir hans stjórn fóru þær pólsku tvisvar í undanúrslit á heimsmeistaramóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×