Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi hefur mikil litadýrð einkennt morgunhimininn í Eyjafirði.
Á vef Veðurstofunnar segir að glitský myndist gjarnan í 15 til 30 kílómetra hæð þegar óvenjukalt er í heiðhvolfinu. Glitský sjást helst um miðjan vetur, um sólarlag eða sólaruppkomu, eins og í morgun.
„Litadýrð þeirra er mjög greinileg því þau eru böðuð sólskini, þótt rökkvað sé eða jafnvel aldimmt við jörð.Litadýrðin þykir minna á þá liti sem sjá má í hvítu lagi sem er innan á sumum skeljum (s.n. ,,perlu-móður''-lag í perluskeljum) og eru þau í ýmsum tungumálum því nefnd perlumóðurský,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Eins og Vísir sagði frá í vikunni hefur himininn verið afar litskrúðugur upp á síðkastið. Er það rakið til vatnsgufu í heiðhvolfinu sem á ættir að rekja sínar til eldgossins öfluga í Tonga á síðasta ári.
Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, veltir einmitt upp þeirri spurningu í morgun á Twitter hvort að þessi viðbótarvatnsgufa frá Tonga muni gera það að verkum að glitskýin láti sjá sig oftar á næstunni.
Glitský á himni fyrir norðan. Háveturinn er glitskýjatíminn þegar frostið í heiðhvolfinu er hve mest, í kringum 70 gráður. Spurning hvort við sjáum þau aðeins oftar núna þökk sé viðbótarvatnsgufunni í heiðhvolfinu frá Hunga Tonga gosinu. https://t.co/iKWjbrbtKO
— Sævar Helgi Bragason (@saevarhb) January 21, 2023