Handbolti

Sveinn fer loksins til Þýskalands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveinn Jóhannsson (lengst til vinstri) á landsliðsæfingu.
Sveinn Jóhannsson (lengst til vinstri) á landsliðsæfingu. vísir/vilhelm

Handboltamaðurinn Sveinn Jóhannsson er farinn frá Skjern í Danmörku og genginn í raðir Minden í Þýskalandi.

Sveinn skrifaði undir eins og hálfs árs samning við Minden. Hann klárar því þetta tímabil með liðinu og verður svo með því allt frá byrjun þess næsta.

Minden er í sautjánda og næstneðsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með sex stig, þremur stigum frá öruggu sæti.

Sveinn, sem er 23 ára, er uppalinn hjá Fjölni. Hann lék með ÍR tímabilið 2018-19 en hélt eftir það til SönderjyskE í Danmörku. Þar var hann í þrjú ár áður en hann samdi við Skjern í sumar. Sveinn átti að fara til Erlangen í Þýskalandi en þau félagaskipti duttu upp fyrir. En núna fær hann loks tækifæri til að spreyta sig í Þýskalandi.

Í vetur hefur Sveinn leikið níu leiki með Skjern í dönsku úrvalsdeildinni og skorað sex mörk.

Sveinn hefur leikið tíu landsleiki fyrir Íslands hönd og lék á EM 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×