Innlent

Hætta við lokun Vinjar í bili

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Vin á Hverfisgötu 47 hefur verið athvarf fólks með geðrænan vanda um árabil.
Vin á Hverfisgötu 47 hefur verið athvarf fólks með geðrænan vanda um árabil. Vísir/Vilhelm

Dagsetrið Vin á Hverfisgötu 47 verður rekið í óbreyttri mynd, í það minnsta út þetta ár. 

Ákvörðun um dagsetrið var tekin á fundi velferðarráðs í dag. Í desember á síðasta ári var greint frá því að starfsemi Vinjar verði lögð niður í sparnaðarskyni. Lokunin var gagnrýnd harðlega og sögðu margir fastagestir þar að þeir ættu engan annan félagsskap. Rætt var við þá í kvöldfréttum stöðvar 2 þann 7. desember:

Vin er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir og er helsta hlutverk þess að draga úr félagslegri einangrun og skapa vinalegt andrúmsloft fyrir gesti þess. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar tók við rekstri Vinjar dagseturs í júlí 2021 en Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu hafði rekið það áður með samningi við Reykjavíkurborg. 

Á fundi velferðarráðs í dag voru hagræðingartillögur borgarinnar, sem samþykktar voru 6. desember síðastliðinn, teknar fyrir. 

„Það hefur aldrei staðið til að leggja starfsemi Vinjar niður án þess að tryggja aðrar útfærslur á þjónustunni. Við leggjum mikla áherslu á að skerða ekki lífs­gæði þess hóps sem sæk­ir Vin,“ er haft eftir Heiðu Björgu Hilmisdóttur, formanni velferðarráðs á vef Reykjavíkurborgar.


Tengdar fréttir

Ekkert sam­ráð fyrir lokun Vinjar: „Ó­mögu­legt að það sé staðið að þessu með þessum hætti“

Geðhjálp lýsir yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Reykjavíkurborgar um að loka Vin. Formaður Geðhjálpar segir ekkert samráð hafa átt sér stað fyrir ákvörðunina, líkt og skilja mátti á tillögu meirihlutans. Honum virðist tillögurnar hafa verið unnar með hraði og án samráðs en nauðsynlegt sé að tryggja þjónustu fyrir þennan viðkvæma hóp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×