Handbolti

Shaq handboltans og Shaq sjálfur ætla að stofna handboltadeild í Bandaríkjunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shaquille O'Neal kallaði Gauthier Mvumbi litla bróður sinn.
Shaquille O'Neal kallaði Gauthier Mvumbi litla bróður sinn.

Shaq handboltans og Shaquille O'Neal sjálfur gætu tekið höndum saman til að koma handboltadeild á laggirnar í Bandaríkjunum.

Kóngómaðurinn Gauthier Mvumbi sló í gegn á HM 2021 og fékk viðurnefndið Shaq handboltans. Þetta barst til eyrna Shaqs sem sendi línumanninum tröllvaxna skilaboð.

Þeir félagar hafa greinilega verið í sambandi frá HM fyrir tveimur árum því danskir fjölmiðlar greina frá því að þeir vinni nú að því að koma handboltadeild á laggirnar í Bandaríkjunum. Þeir hittust nýverið í New York til að ræða málin.

Handbolti er ekki hátt skrifuð íþrótt í Bandaríkjunum. Þau eiga þó loks lið á HM í Svíþjóð og Póllandi sem hefst í dag. Bandaríkjamenn eru í G-riðli með Egyptum, Króötum og Marokkóum.

Fyrir HM fyrir tveimur árum þekktu eflaust fæstir Mvumbi enda spilaði hann í frönsku D-deildinni. En hann var óvæntasta stjarna mótsins og vakti athygli fyrir góða frammistöðu. Mvumbi nýtti færin sín sérstaklega vel og skoraði tuttugu mörk úr 23 skotum á mótinu.

Mvumbi var einn af vinsælustu leikmönnum HM í Egyptalandi, fór í fjölmörg viðtöl og fylgjendafjöldi hans á Instagram margfaldaðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×