Viðskipti innlent

Sigurður ráðinn framkvæmdastjóri iCert

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Sigurður hefur starfað sem sérfræðingur á endurskoðunarsviði EY frá því í október 2021.
Sigurður hefur starfað sem sérfræðingur á endurskoðunarsviði EY frá því í október 2021. EY

Sigurður Karlsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri iCert. Sigurður tekur við starfinu af Jóni Karlssyni. Jón starfar áfram hjá félaginu og sinnir starfi vottunarstjóra.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Sigurður hefur starfað sem sérfræðingur á endurskoðunarsviði EY frá því í október 2021. Hann er með meistarapróf í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskólanum í Reykjavík, MBA próf frá Háskóla Íslands og próf í verðbréfamiðlun. Áður starfaði Sigurður sem framkvæmdastjóri hjá Basko verslunum.

Í lok síðasta árs keypti EY á Íslandi allt hlutafé í iCert. iCert er faggild vottunarstofa þar sem áhersla er lögð á að veita framúrskarandi þjónustu, skilvirka vottunarþjónustu og stuðla að stöðugum umbótum á stjórnunarkerfum viðskiptavina með uppbyggilegri endurgjöf. 

Félagið hefur unnið að jafnlaunavottun fyrirtækja undanfarin ár auk þess að bjóða upp á aðrar vottanir meðal annars út frá umhverfisstjórnunarkerfum, ISO stöðlum og Vakanum, gæða og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar. iCert hefur einnig þróað aðferðafræði við að hjálpa fyrirtækjum og stofnunum við að lýsa yfir fullu kolefnishlutleysi (e. net zero) og við ábyrga kolefnisjöfnun.

„Rekstur iCert hefur gengið vel og vaxið undanfarið ár, við sjáum mikil tækifæri í að stækka félagið enn frekar. Sigurður býr yfir víðtækri þekkingu og reynslu sem nýtist í áframhaldandi sókn félagsins og erum við full tilhlökkunar fyrir framtíð starfseminnar,“ segir Guðjón Norðfjörð, forstjóri EY á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×