Fótbolti

HM fé­lags­liða verður eins og HM lands­liða árið 2025

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, heldur áfram að taka umdeildar ákvarðanir.
Gianni Infantino, forseti FIFA, heldur áfram að taka umdeildar ákvarðanir. Victor Boyko/Getty Images

Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusamabndsins - FIFA - hefur tilkynnt að sambandið hygðist hefja leik á glænýrri heimsmeistarakeppni félagsliða árið 2025. 

Keppnin verður uppsett líkt og heimsmeistaramót landsliða í núverandi mynd. Alls myndu 32 lið keppa í átta riðlum áður en útsláttarkeppni tekur við. Þá myndu bestu lið hverrar álfu fyrir sig fá keppnisrétt á mótinu.

„Við samþykktum fyrir nokkrum árum að hafa nýja heimsmeistarakeppni karla með 24 liðum. Hefði hún átt að fara fram 2021. Þessum atburði var frestað vegna Covid-19. Nýja HM karlaliða mun þess vegna fara fram 2025 og þar munu 32 lið taka þátt, bestu félagslið í heimi,“ sagði Infantino á blaðamannafundi.

„Það þarf að ræða og samþykkja hvar keppnin fer fram en þessi 32 liða keppni mun fara fram þannig að þetta verður eins og þessi heimsmeistarakeppni [í Katar] með 32 liðum,“ bætti forsetinn við.

Hugmyndir sem þessar hafa verið gagnrýndar þar sem keppnin eykur álag fótboltamanna á efsta stigi, það er þegar býsna mikið. Lið spila í deildarkeppnum, bikarkeppnum og álfukeppnum. Þá eru stórmót landsliða annað hvert ár sem og töluvert magn landsleikja ár hvert.“

Jaime Carragher, fyrrverandi varnarmaður Liverpool og núverandi sérfræðingur á Sky Sports, er á meðal gagnrýnenda. Hann segir að leikmenn þurfi á hvíld að halda en í dag sé komið fram við þá líkt og nautgripi.

Hann segir einnig að FIFA sé meinilla við að Meistaradeild Evrópu, stærsta félagsliðakeppni heims, sé á vegum UEFA og að sambandið vilji herða tökin með því að stofna sína eigin keppni. Carragher kallar jafnframt eftir því að evrópsk lið sniðgangi keppnna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×