Þetta kom fram þegar lögreglumaðurinn sem yfirheyrði hinn meinta árásarmann, David DePape, gaf skýrslu í dómsal í gær. Sagði hann að á „dauðalista“ árásarmannsins hafi einnig verið að finna Hunter Biden, son Joe Biden Bandaríkjaforeta, og Demókratann Gavin Newson, ríkisstjóra Kaliforníu, auk Tom Hanks.
DePape er ákærður í sex liðum, meðal annars fyrir tilraun til manndráps vegna árásarinnar á Paul Pelosi þann 28. október síðastliðinn. DePape hefur neitað sök í öllum ákæruliðum.
Dómari mat það sem svo að lokinni fjögurra tíma skýrslugjöf að sannanir væru nægar til að halda réttarhöldum áfram. Fram kom í máli saksóknara að DePape hafi ætlað sér að taka Nancy Pelosi í gíslingu, en að hún hafi verið í höfuðborginni Washington DC þegar ráðist var inn á heimilið.
Í frétt BBC segir að símtal hins 82 ára Paul Pelosi til neyðarlínunnar hafi verið spilað í dómsal í gær. Kom þar fram að hann hafi ekki þekkt til árásarmannsins.
Lögregla bar að garði skömmu áður en DePape barði Pelosi með hamri í höfuðið þannig að höfuðkúpa hans brotnaði.
Hamarinn sem notaður var í árásinni var sýnt sem sönnunargagn í dómsalnum í gær og þá voru upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna sem komu á vettvang einnig sýndar. Mátti þar sjá lögreglumenn krefja DePape um að sleppa hamrinum. Hann sagði þá: „Uh, nei“ (e. „Uh, nope“) og barði svo Pelosi í höfuðið með hamrinum.
Réttarhöldum í málinu verður fram haldið þann 28. desember næstkomandi.