Gunnar Hörður Garðarsson samskiptastjóri ríkislögreglustjóra staðfestir þetta í samtali við Vísi. Hann getur ekkert tjáð sig um í hverju aðgerðirnar felast. Þó megi gera ráð fyrir að embættið tjái sig um málið á seinni stigum. Hvenær það verði sé þó ekki ljóst.
Inntur eftir því hvort þetta sé í fyrsta sinn sem farið er í slíkar aðgerðir segist Gunnar ekkert geta tjáð sig um það.
Landsréttur felldi í gær úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir tveimur mönnum sem ákærðir eru fyrir tilraun til hryðjuverka. Þeir eru því frjálsir ferða sinna eftir rúmar ellefu vikur í haldi lögreglu. Í úrskurði Landsréttar var meðal annars vísað til þess að ekki væri talið að árás væri yfirvofandi, eða mjög líkleg.
Fréttastofa hefur ákæru héraðssaksóknara á hendur mönnunum undir höndum og fjallaði ítarlega um efni hennar í gærkvöldi. Annar mannanna sem ákærður er fyrir tilraun til hryðjuverka er sagður hafa reynt að nálgast lögreglufatnað og lögregluskilríki, til að villa um fyrir fólki í tengslum við skotárás. Lögregla segir mennina tvo hafa rætt verknaðaraðferðir þekktra hryðjuverkamanna.