Erlent

Kallaði þingmann hrokafullan fávita

Samúel Karl Ólason skrifar
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AP/Hans Weston

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur beðist afsökunar á því að hafa kallað þingmann stjórnarandstöðunnar hrokafullan fávita á þingi. Ummælin sem látin voru falla á þingi í morgun áttu ekki að heyrast.

Miklar umræður fóru fram á þingi Nýja-Sjálands í morgun þar sem Ardern svaraði spurningum þingmanna. David Seymor, leiðtogi Aðgerðaflokksins eða ACT, bað Ardern um að gefa dæmi um tilvik þar sem hún hefði gert mistök, beðist afsökunar á þeim og bætt fyrir þau.

Þá nefndi hún meðal annars viðbrögð við faraldri Covid. Þau hefðu ekki verið fullkomin. Hún sagði ríkisstjórn sína ávallt hafa tekið ákvarðanir sem taldar voru í hag þjóðarinnar á hverjum tíma.

Eftir að hún settist niður heyrðist Ardern segja: „Hann er svo hrokafullur þessi fáviti,“ eins og sjá má á myndbandi Guardian.

BBC segir að Ardern hafi í kjölfarið beðið Seymor afsökunar.

Miðillinn segir einnig að Verkamannaflokkurinn, flokkur Ardern, hafi verið að koma illa út úr skoðanakönnunum. Ardern, sem er á sínu öðru kjörtímabili sem forsætisráðherra, hefur hingað til verið mjög vinsæl í Nýja-Sjálandi en flokkurinn mælist nú um fimm prósentustigum á eftir stærsta stjórnarandstöðuflokknum.

Gengið verður til kosninga seint á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×