Argentína tók efsta sætið og Pól­land fór líka á­fram eftir ó­trú­lega dramatík

Smári Jökull Jónsson skrifar
Argentínumenn fögnuðu í kvöld eftir að hafa tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum.
Argentínumenn fögnuðu í kvöld eftir að hafa tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum. Vísir/Getty

Argentína tryggði sér efsta sætið í C-riðli og um leið sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistarkeppninnar með 2-0 sigri á Póllandi í kvöld. Pólverjar fara einnig áfram eftir mikla dramatík í hinum leik riðilsins.

Fyrir leikinn í kvöld var ljóst að Pólverjum dugði jafntefli enda með fjögur stig í efsta sæti riðilsins á meðan Argentína þurfti sigur, þó svo að jafntefli gæti einnig komið þeim áfram.

Argentínumenn byrjuðu betur og það var ljóst að Pólverjar ætluðu ekki að spila neinn sóknarleik. Lionel Messi fékk ágætt færi á tíundu mínútu en Wojciech Szczesny, sem hefur verið frábær í marki Pólverja á mótinu, varði vel.

Á 38.mínútu fengu Argentínu menn síðan umdeilda vítaspyrnu þegar Szczesny fór með höndina í höfuð Messi þegar hann hugðist slá knöttinn í burtu. Messi steig á vítapunktinn en Szczesny gerði sér lítið fyrir og varði, önnur vítaspyrnan sem hann ver í Katar.

Wojciech Szczesny sést hér verja víti Lionel Messi í fyrri hálfleiknum.Vísir/Getty

Síðari hálfleikurinn var hins vegar ekki gamall þegar Argentína náði forystunni. Alexis Mac Allister skoraði strax í upphafi og Argentínumenn í stúkunni fögnuðu gríðarlega.

Í hinum leik riðilsins komust Mexíkóar í kjölfarið í 2-0 og nálguðust þá Pólverja óðfluga í öðru sætinu.

Julian Alvarez kom Argentínu síðan í 2-0 á 67.mínútu og þá voru Pólverjar og Mexíkóar algjörlega hnífjafnir í riðlinum. Bæði lið með fjögur stig, markatalan 2-2 og innbyrðis voru þjóðirnar jafnar eftir 0-0 í viðureign þeirra í riðlinum.

Dramatíkin síðustu mínúturnar var rosaleg. Argentínumenn fengu færi til að skora og í uppbótartíma björguðu Pólverjar á marklínu.

Julian Alvarez og Lionel Messi fagna hér marki þess fyrrnefnda í leiknum í kvöld.Vísir/Getty

Þegar lokaflautið gall var leik Mexíkó og Sádi Arabíu ekki enn lokið og þurftu Pólverjar að bíða með öndina í hálsinum. Í uppbótartíma skoraði Sádi Arabía en ennþá þurfti Mexíkó bara eitt mark til að vera með fleiri mörk skoruð en Pólverjar. Það tókst ekki og Pólverjar fara áfram á markatölu.

Argentína mætir Ástralíu í 16-liða úrslitum á laugardag en Pólverjar mæta heimsmeisturum Frakka á sunnudag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira