Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við fréttastofu en rannsóknin beindist að brotum á almennum hegningarlögum hvað varðar hryðjuverk og hins vegar brotum á vopnalögum. Ekki liggur fyrir hvort ákæra verði gefin út og þá hvenær en að sögn Ólafs ætti ekki að líða langur tími þar til saksóknari tekur ákvörðun.
Mennirnir tveir voru úrskurðaðir í tveggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald í síðustu viku en þeir höfðu þá þegar verið í varðhaldi í níu vikur. Lögmaður annars mannsins kærði úrskurðinn í síðustu viku til Landsréttar sem síðan staðfesti úrskurðinn, að sögn Ólafs. Ekki hefur verið ákveðið hvort farið verði fram á lengra gæsluvarðhald að svo stöddu.
Fleiri hafa stöðu sakbornings á mögulegum vopnalagabrotum en saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara sagði þá innan við tíu talsins þegar fréttastofa ræddi við hann í síðustu viku.
Upp komst um málið um miðjan september eftir upplýsingar um rannsókn sem hafði staðið yfir í nokkrar vikur, og sneri að framleiðslu vopna með þrívíddarprenturum, leiddi til gruns um að í undirbúningi væru árásir gegn borgurum ríkisins og stofnunum þess.
Fjórir voru handteknir í sambandi við málið í september í umfangsmiklum aðgerðum víða á höfuðborgarsvæðinu. Þá lagði lögregla hald á tugi af skotvopnum, hálfsjálfvirkum þar á meðal, ásamt þúsundum af skotfærum.
Á upplýsingafundi lögreglu eftir að upp komst um málið var vísað til þess að rætt hafi verið um Alþingi og árshátíð lögreglumanna sem möguleg skotmörk.
Um miðjan október kom síðan fram í fjölmiðlum að mennirnir hefðu rætt sín á milli að myrða Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og sósíalistana Gunnar Smára Egilsson og Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Þá hafi þingmenn Pírata einnig komið til tals.