England tryggði sér efsta sætið með öruggum sigri í grannaslagnum Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar 29. nóvember 2022 20:55 Marcus Rashford skoraði tvö fyrir Englendinga í kvöld. Robert Cianflone/Getty Images England tryggði sér efsta sæti B-riðils á heimsmeistaramótinu í Katar er liðið vann öruggan 3-0 sigur gegn nágrönnum sínum í Wales í kvöld. Ekki nóg með það að hafa gulltryggt sæti sitt í 16-liða úrslitum tókst Englendingum einnig að slá Walesverja úr leik. Enska liðið var hættulegra frá fyrstu mínútu leiksins og stjórnaði leiknum að miklu leyti. Velska liðið var ekki líklegt til afreka í fyrri hálfleik, en staðan var enn markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja. Englendingar náðu loksins að brjóta ísinn á 50. mínútu leiksins þegar liðið fékk aukaspyrnu á hættulegum stað. Marcus Rashford lét vaða úr spyrnunni og boltinn söng í netinu fjær, 1-0. Staðan var svo orðin 2-0 aðeins tveimur mínútum síðar þegar Harry Kane fékk boltann úti á hægri kanti, renndi honum þéttingsfast fyrir markið og fann fæturna á Phil Foden sem kláraði auðveldlega í autt markið. Marcus Rashford var svo aftur á ferðinni þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Hann fékk boltann þá úti á kanti og keyrði inn á teiginn áður en hann tók einföld skæri og lét vaða. Ekki urðu mörkin fleiri og niðurstaðan því öruggur 3-0 sigur Englendinga sem tryggðu sér efsta sæti B-riðilsins. Liðið endar með sjö stig og mætir Senegal í 16-liða úrslitum, en Walesverjar eru hins vegar úr leik með aðeins eitt stig í fjórða og neðsta sæti riðilsins. HM 2022 í Katar Fótbolti
England tryggði sér efsta sæti B-riðils á heimsmeistaramótinu í Katar er liðið vann öruggan 3-0 sigur gegn nágrönnum sínum í Wales í kvöld. Ekki nóg með það að hafa gulltryggt sæti sitt í 16-liða úrslitum tókst Englendingum einnig að slá Walesverja úr leik. Enska liðið var hættulegra frá fyrstu mínútu leiksins og stjórnaði leiknum að miklu leyti. Velska liðið var ekki líklegt til afreka í fyrri hálfleik, en staðan var enn markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja. Englendingar náðu loksins að brjóta ísinn á 50. mínútu leiksins þegar liðið fékk aukaspyrnu á hættulegum stað. Marcus Rashford lét vaða úr spyrnunni og boltinn söng í netinu fjær, 1-0. Staðan var svo orðin 2-0 aðeins tveimur mínútum síðar þegar Harry Kane fékk boltann úti á hægri kanti, renndi honum þéttingsfast fyrir markið og fann fæturna á Phil Foden sem kláraði auðveldlega í autt markið. Marcus Rashford var svo aftur á ferðinni þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Hann fékk boltann þá úti á kanti og keyrði inn á teiginn áður en hann tók einföld skæri og lét vaða. Ekki urðu mörkin fleiri og niðurstaðan því öruggur 3-0 sigur Englendinga sem tryggðu sér efsta sæti B-riðilsins. Liðið endar með sjö stig og mætir Senegal í 16-liða úrslitum, en Walesverjar eru hins vegar úr leik með aðeins eitt stig í fjórða og neðsta sæti riðilsins.