Fótbolti

Annar heimsmeistaratitill Norður-Kóreu á sex vikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norður-kóresku stelpurnar fagna marki Jon Il-chong í úrslitaleiknum á móti Spáni en keppnin fór fram í Dóminíska lýðveldinu.
Norður-kóresku stelpurnar fagna marki Jon Il-chong í úrslitaleiknum á móti Spáni en keppnin fór fram í Dóminíska lýðveldinu. Getty/Pedro Vilela

Norður-Kórea tryggði sér heimsmeistaratitilinn hjá sautján ára landsliðum kvenna í fótbolta í gær eftir sigur á Spáni í vítaspyrnukeppni í úrslitaleiknum.

Þetta er annar heimsmeistaratitilinn Norður-Kóreu á stuttum tíma því tuttugu ára landslið þjóðarinnar varð einnig heimsmeistari í september.

Að þessu sinni höfðu norður-kóresku stelpurnar betur í vítakeppni eftir 1-1 jafntefli í leiknum sjálfum. Spánn komst yfir en Norður-Kórea náði að jafna. Liðið vann vítakeppnina 4-3.

Það var lítið að gera hjá markverðinum Pak Ju-gyong fram eftir móti en hún varði nokkrum sinnum mjög vel í úrslitaleiknum og varði síðan eina vítaspyrnu í vítakeppninni.

„Við erum stolt að vinna besta evrópska landsliðið og verða besta landslið heims. Við gátum unnið út af samheldninni. Við lærðum það einu sinni enn að ef við berjumst saman öll sem ein þá er sigurinn óhjákvæmilegur,“ sagði Song Sung-gwon, þjálfari norður-kóreska liðsins.

Jon Il-chong skoraði mark leiksins í úrslitaleiknum og var kjörin besti leikmaður mótsins. Spánn átti markahæsta leikmanninn í Pau Comendador sem var næstbesti leikmaður mótsins.

Norður-Kórea sló Pólland út úr átta liða úrslitunum og vann 1-0 sigur á bandarísku stelpunum í undanúrslitunum. Bandaríkin tryggði sér bronsið með 3-0 sigri á Englandi í leiknum um þriðja sætið.

Norður-Kórea varð einnig heimsmeistari hjá sautján ára stelpunum 2008 og 2016.

Tuttugu ára stelpurnar höfðu unnið 1-0 sigur á Japan í úrslitaleik U20 en þá slógu þær einnig bandaríska landsliðið í undanúrslitunum.

Norður-Kórea var að vinna sinn þriðja heimsmeistaratitil hjá tuttugu ára stelpunum á dögunum en þær unnu einnig 2006 og 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×