Innlent

Óvelkomnir í annarlegu ástandi neita að fara

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Menn í annarlegu ástandi voru víða til vandræða í höfuðborginni í gærkvöldi.
Menn í annarlegu ástandi voru víða til vandræða í höfuðborginni í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti tveimur útköllum í gærkvöldi þar sem menn í annarlegu ástandi neituðu að yfirgefa staði þar sem þeir voru óvelkomnir. Þá barst henni einnig tilkynning um líkamsárás á veitingastað.

Um klukkan 21.40 voru afskipti höfð af manni í annarlegu ástandi í póstnúmerinu 105. Maðurinn var staddur á hóteli sem hann neitaði að yfirgefa og fór ekki að fyrirmælum lögreglu þegar hún mætti á vettvang. Hann var þá handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Tveimur tímum seinna var óskað eftir aðstoð lögreglu í miðborginni þar sem ölvaður maður var kominn inn í húsnæði og vildi ekki fara. Húsráðandi hafði reynt að vísa manninum út en átök brotist út og maðurinn slegið til húsráðanda, með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á enni.

Húsráðandi var fluttur á Landspítala en árásarmaðurinn handtekinn.

Lögregla var einnig kölluð til vegna manns sem var að grýta hús og vegna þjófnaðar á farangri ferðamanns, þar sem tveimur ferðatöskum var stolið. 

Þá var tilkynnt um líkamsárás á veitingastað í póstnúmerinu 111 rétt fyrir miðnætti. Þar réðist maður í annarlegu ástandi á öryggisvörð, sem hafði verið kallaður á vettvang til að vísa manninum út. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×