Þjóðmálaþátturinn Sprengisandur er í beinni útsendingu á Bylgjunni og hér á Vísi frá klukkan tíu til tólf alla sunnudaga. Í þættinum fær Kristján til sín góða gesti og fer yfir þau málefni sem eru efst á baugi í samfélaginu hverju sinni.
Pawel Bartoszek varaborgarfulltrúi mætir fyrstur í þáttinn að þessu sinni. Hann telur mögulegt að byggja neðanjarðarlest á höfuðborgarsvæðinu og í reynd bara skynsamlegt.
Næst koma þau Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar. Þau eru bæði nýkomin af Cop27 ráðstefnunni í Egyptalandi þar sem bjarga átti mannkyninu. Sitt sýnist hverjum um árangurinn.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verður í þættinum rétt eftir kl. 11.00 . Þar munu hún og Kristján ræða stærstu mál síðustu vikna - Íslandsbankaskýrslu Ríkisendurskoðunar og skotgrafirnar í því máli, útlendingamálin og sjálfsagt eitt og annað fleira, t.d. vinsældir og óvinsældir í flóknu samstarfi.
Síðustu menn á dagskrá verða almannatenglarnir Ólafur Hauksson og Andrés Jónsson. Umræðuefnið verður Katar og hin umdeilda heimsmeistarakeppni í fótbolta sem hefst þar í dag. Ólafur telur fráleitt að RÚV sýni frá keppni í þessu landi þar sem mannréttindabrot eru viðtekin venja, pressan eykst á fyrirtæki um að nýta sér ekki þennan vettvang til að auglýsa sig en ólíklegt að sá þrýstingur hafi mikil áhrif, eða hvað?