Innlent

Sneri alltaf aftur á lögreglustöðina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Um hundrað mál voru bókuð hjá lögreglu í gær og í nótt.
Um hundrað mál voru bókuð hjá lögreglu í gær og í nótt. Vísir/Vilhelm

Ökumaður sem stöðvaður var í Breiðholti vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna virðist ekki hafa verið á þeim buxunum að yfirgefa lögreglustöðina í Kópavogi að lokinni sýnatöku í gær.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbókarfærslu lögreglu vegna verkefna gærkvöldsins og næturinnar. Þar segir að ökumaðurinn hafi verið stöðvaður í Breiðholti á tíunda tímanum í gær.

Að lokinni sýnatöku var ökumaðurinn frjáls ferða sinna og var honum þá vísað út úr lögreglustöðinni í Kópavogi.

Ökumaðurinn fór þá ekki að fyrirmælum lögreglu þrátt fyrir að vera aðstoðaður út úr stöðinni. Hann sneri nefnilega alltaf aftur. Maðurinn var að lokum handtekinn fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu og vistaður í fangageymslu.

Fram kemur í dagbókinni að rúmlega hundrað mál hafi verið skráð á frá klukkan 17 í gær til klukkan fimm í morgun. Nokkuð var um ölvunarakstur og þá hafði lögregla hendur í hári manns sem var eftirlýstur í öðru máli. Var hann stöðvaður í Hafnarfirði er hann var í ökuferð, sviptur ökuréttindum.

Var honum komið fyrir í fangageymslum lögreglu í tengslum við rannsókn lögreglu á málinu sem hann var eftirlýstur í. Ekki kemur fram um hvaða mál er að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×