Viðskipti innlent

Krist­rún telur næsta víst að sleifar­lag Bjarna hafi skaðað hags­muni al­mennings

Jakob Bjarnar skrifar
Kristrún Frostadóttir telur skýrslu Ríkisendurskoðunar staðfesta að verulega illa hafi verið staðið að sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Kristrún Frostadóttir telur skýrslu Ríkisendurskoðunar staðfesta að verulega illa hafi verið staðið að sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. vísir/vilhelm

Fyrstu viðbrögð Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, við svartri skýrslu Ríkisendurskoðanda um Íslandsbankasöluna, eru þau að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hljóti að bera alla ábyrgð á málinu.

„Ábyrgðin er ráðherrans. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er áfellisdómur yfir verklagi ráðherra við sölu Íslandsbanka. Hún staðfestir það sem við bentum á í vor,“ segir Kristrún í svari við fyrirspurn fréttastofu. 

„Það bendir allt til þess að lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafi ekki verið fylgt — um hæsta verð og jafnræði. Ráðherra átti að tryggja að þessum markmiðum væri náð, en þar brást hann,“ segir Kristrún.

Henni þykir einsýnt að skýrslan sé svört og Bjarni hljóti að sitja uppi með þennan Svarta-Pétur.

„Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar kann sleifarlag ráðherra að hafa skaðað hagsmuni ríkissjóðs. Og jafnræðis var ekki gætt. Fyrir vikið er traust til stjórnvalda og til fjármálakerfisins laskað. Það er alvarlegt.“

Kristrún segir að vænta megi frekari viðbragða frá henni vegna málsins.

„Við þurfum tíma til að fara yfir skýrsluna og leggja mat á stöðuna. En það er alveg ljóst að þessu máli er ekki lokið.“


Tengdar fréttir

Banka­sýslan bregst við Ís­lands­banka­skýrslunni: Fram­kvæmd sölunnar hafi verið í fullu sam­ræmi við lög

Bankasýsla ríkisins gerir viðamiklar athugasemdir við skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, sem birt verður á morgun. Bankasýslan segir meðal annars að fyrirkomulag sölunnar hafi verið í fullu samræmi við lög og reglur og að starfsfólk stofnunarinnar búi yfir haldgóðri menntun og mikilli reynslu af umsýslu og sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Fjöl­þættir ann­markar á Ís­lands­banka­sölunni

Ríkisendurskoðun hefur lokið við skýrslu sína um söluna á Íslandsbanka og skilað til Alþingis. Skýrslan verður gerð opinber eftir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins um hana á morgun. Í skýrslunni er fjallað um „fjölþætta annmarka“ á undirbúningi og framkvæmd sölunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×